- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í Norska húsinu í Stykkishólmi er jólablærinn að færast yfir húsið. Sett hefur verið upp sýning frá ýmsum tímaskeiðum á jólatrjám, jólaskrauti, jólakortum og öðru sem tengist jólum og jólahaldi.
Í Mjólkurstofu Norska hússins sýnir Ingunn Jensdóttir myndlistarkona vatnslitamyndir. Um þessar mundir er Ingunn, sem einnig er leikstjóri, að vinna við uppsetningu á leikritinu Fiðlaranum á þakinu hjá Leikfélaginu Grímni í Stykkishólmi.
Krambúð hússins hefur einnig verið sett í jólabúninginn og þar er jólalegt um að litast og ýmislegt að sjá og skoða og því tilvalinn vettvangur til að finna fagrar og óvenjulegar jólagjafir. Í krambúðinni er gestum einnig boðið upp á heitan epladrykk og piparkökur.
Hin sérstaka jólastemmning hússins gerir ferð í Norska húsið í Stykkishólmi að ógleymanlegri upplifun á aðventunni.
Húsið er opið fimmtudaga, föstudaga og laugardaga fram að jólum, kl. 14.00-18.00