- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Jólahús og jólafyrirtæki Grundarfjarðarbæjar 2024
Menningarnefnd Grundarfjarðarbæjar ásamt íbúum á Fellaskjóli fóru saman á jólarúnt um bæinn þann 18. desember til að skoða skreytingar hjá íbúum og fyrirtækjum. Rútuferðir sóttu íbúa Fellaskjóls á sannkallaðri jólarútu, boðið var uppá heitt kakó með rjóma og smákökur. Sannkallaður jólaandi var yfir farþegum rútunnar sem var skreytt með jólaljósum og allir í jólagír. Við þökkum íbúum Fellaskjóls fyrir góða hjálp við val á jólahúsi og jólafyrirtæki Grundarfjarðar 2024. Við hlökkum til að endurtaka leikinn að ári og erum spennt að halda í þessa hefð um ókomin ár.
Jólahús Grundarfjarðarbæjar 2024
Það var einróma ákvörðun óformlegrar dómnefndar að Grundargata 37 hjá þeim Guðrúnu Lilju og Gunnari Jökli væri jólahús Grundarfjarðarbæjar 2024. Litrík og hlýleg ljós lýsa upp skammdegið ásamt því að jólasveinarnir fanga athygli vegfarenda.
Best skreytta fyrirtækið í Grundarfjarðarbæ 2024
Óformlega dómnefndin var sammála um að Guðmundur Runólfsson ehf væri best skreytta fyrirtæki Grundarfjarðarbæjar 2024. Hreindýr, jólaljós og fallegt jólatré úr við fyrir framan fyrirtækið fanga augað á fallegan hátt.
Við óskum þeim innilega til hamingju og færum þeim kærar þakkir fyrir að fegra umhverfið okkar á þennan einstaka, jólalega hátt. Í verðlaun fá þau túlípana, konfekt og viðurkenningarskjal.
Við þökkum öllum þeim sem hafa gefið sér tíma í að skreyta fallega á aðventunni.