- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Óskað var eftir tilnefningum í jólahús Grundarfjarðarbæjar og þökkum við öllum þeim sem sendu inn tilnefningar.
Menningarnefnd fór í sína árlegu „jólahúsa-“leit með tilnefningarnar til hliðsjónar og fundu þar ekki eitt, heldur tvö hús sem báru af – hvort á sinn hátt.
Á Grundargötu 72, í lítilli hliðargötu, stendur einstaklega fallegt einbýlishús við sjávarsíðuna. Fulltrúar menningarnefndar voru sammála um að þetta hús væri svo sannarlega Jólahús Grundarfjarðar árið 2021.
Hægt er að lýsa húsinu á þann hátt að það var fallega upp lýst, hátíðlegt og kyrrlátt, sannkallaður jólaandi.
Það eru þau Heiðdís Lind, leikskólastjóri og Elvar Þór sem búa þar ásamt dóttur sinni.
SVO, við nánari skoðun og eftir ítarlegar umræður var menningarnefnd á því að húsið að Hlíðarvegi 25, hjá Gunnari Magnússyni og Friðsemd Ólafsdóttur bæri einnig af. Húsið ljómar og færir manni yl sem og minnir okkur á eldri tíma.
Það var við afhendingu verðlauna, sem hjónin voru afskaplega þakklát fyrir, að það kom í ljós að Gunnar hefur smíðað nær allar jólaskreytingarnar sjálfur. Einnig hafa þau hjónin hafa lagt mikinn metnað í uppsetningu á seríum og hvernig þær eru settar upp. „Það er passað upp á hverja tommu við uppsetningu“ segja Gunnar og Fríða, eins og hún er kölluð - og gat nefndin sannarlega tekið undir það.
Við óskum íbúum þessara tveggja húsa innilega til hamingju og færum þeim kærar þakkir fyrir að fegra umhverfið okkar á þennan einstaka, jólalega hátt.
Hér má sjá myndir af Jólahúsum Grundarfjarðarbæjar 2021