- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Nú þegar það eru einungis 24 dagar til jóla þá birtist á morgun fyrsti glugginn í jólagluggum Grundarfjarðarbæjar. Þar sem vel tókst til í fyrra með þessari nýjung þá var ákveðið að gera þetta að árlegum viðburði, hér má sjá jólagluggana 2020.
Á hverjum degi frá 1. til 24. desember opnast einn jólagluggi, sem fyrirtæki, stofnun eða íbúi í Grundarfirði hefur skreytt og býður vegfarendum að kíkja á gluggann. Það er tilvalið að fara út þegar rökkva tekur og kíkja á jólagluggana í bænum.
Á hverjum morgni birtist síðan mynd af jólaglugga dagsins á bæjarvefnum og gefst þá einnig tækifæri til að giska hvar glugginn er.
Hér gefst öllum, brottfluttum Grundfirðingum og öðrum áhugasömum, tækifæri til þess að skoða og sjá gluggana sem og taka þátt í leit að þeim.
Við hvetjum ykkur eindregið til þess að taka mynd af gluggunum í göngu ykkar og merkja á Instagram með #Grundarfjörður
Með þessu móti gleðja íbúar hvern annan með fallegum jólaglugga, um leið og hvatt er til samveru fjölskyldunnar, með því að njóta útivistar og efla heilsuna á gluggarölti í bænum. Við vitum jú öll að það er ekki gott að hanga bara yfir konfektkassanum!
Gleðilega hátíð!