Ársreikningar Grundarfjarðarbæjar A- og B- hluta sjóða fyrir árið 2016 voru lagðir fram á fundi bæjarstjórnar 6. apríl  2017.

 

Heildartekjur samstæðunnar allrar voru 965 m. kr., en heildarútgjöld hennar þegar tekið hefur verið tillit til afskrifta að fjárhæð 47,2 m. kr. voru 870,1 m. kr.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð í samstæðunni um 94,9 m. kr.  

Að teknu tilliti til niðurstöðu fjármagnsliða að fjárhæð 58,1 m. kr. var samstæðan öll rekin með 36,8 m. kr. rekstrarafgangi árið 2016. 

 

Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum hefur lækkað úr 149,11% árið 2015 í 140,47% árið 2016.   Samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150 %.  Skuldastaðan sem hlutfall af heildartekjum hafði verið mun hærra árin þar á undan.  Fyrri áætlanir bæjaryfirvalda gerðu ekki ráð fyrir að 150% markinu yrði ekki náð fyrr en árið 2017/2018.  Ánægjulegt er að sjá hversu vel hefur tekist til í þessum efnum.

 

Niðurstaða rekstrarreiknings er betri en gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins.

Þessi góði árangur náðist sökum þess að gætt hefur verið aðhalds og hagræðingar í rekstri stofnana og deilda. Jafnframt skiptir sköpum að verðlag hefur verið  stöðugt og innan þeirra marka sem spár gerðu ráð fyrir. 

 

Starfsfólki bæjarins er þakkað fyrir vel unnin störf í rekstri sveitarfélagsins og ekki síður ber að þakka íbúum sveitarfélagsins fyrir þolgæði og gott samstarf meðan glímt hefur verið við lækkun skulda bæjarins.

 

Í  sjóðstreymi samstæðunnar kemur fram að veltufé frá rekstri er 114,6  m.kr. og handbært fé frá rekstri er 103,9  m.kr., þegar tekið hefur verið tillit til breytinga á rekstrartengdum eignum.

 

Fjárfestingar voru 73,9 m.kr. nettó.    Afborganir lána voru 107,3  m.kr., en á móti voru tekin ný lán að fjárhæð 60,4 m. kr. Handbært fé lækkaði á árinu um 16,9 m. kr. en í upphafi ársins var það 111,4 m.kr.  Í árslok var handbært fé  94,5 m.kr.