- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Hlynur Elías Bæringsson tekur við titlinum aðal-íþróttamaður 2004 hjá HSH |
Fimmtudaginn 6. janúar sl. voru íþróttamenn HSH fyrir árið 2004 útnefndir í íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi. Tveir Grundfirðingar voru kjörnir íþróttamenn ársins í sinni grein, þeir Hermann Geir Þórsson, knattspyrnumaður hjá Víkingi, búsettur í Grundarfirði og Hlynur Elías Bæringsson, körfuknattleiksmaður hjá Snæfelli, en Hlynur er fæddur og uppalinn í Grundarfirði. Hlynur var jafnframt kjörinn aðal-íþróttamaður 2004 hjá HSH. Þeim Hermanni og Hlyni eru færða bestu óskir með titlana sem og öðrum kjörnum íþróttamönnum.
Útnefningar frá ráðum voru eftirfarandi:
Frjálsíþróttamaður HSH 2004:
Frjálsíþróttaráð HSH velur Hilmar Sigurjónsson, Víking frjálsíþróttamann ársins 2004.
Hilmar hefur á árinu 2004 bætt árangur sinn verulega í hástökki og kórónaði árangur sinn með því að stökkva yfir 1,93 m. á Landsmóti UMFÍ á Sauðárkróki þar sem hann keppti við bestu frjálsíþróttamenn landsins og hafnaði í 4. sæti.
Hilmar hefur á árinu verið í Úrvalshópi FRÍ og tekið virkan þátt í því verkefni ásamt því að keppa og æfa hérlendis og erlendis.
Af framantöldu má sjá að Hilmar hefur lagt alúð og metnað með ástundun sinni, í því að ná langt í frjálsum íþróttum, hann er því vel að því kominn að vera útnefndur frjálsíþróttamaður HSH árið 2004.
Hestamaður HSH 2004:
Fyrir valinu varð Lárus Ástmar Hannesson, Snæfellingi.
Lárus Ástmar hefur á þessu ári eins og mörgum undan förnum árum náð frábærum árangri í keppni í hestaíþróttum. M.a vann hann til verðlauna í öllum flokkum á íþróttamóti Snæfellings í Grundarfirði, var í verðlaunasætum á Bikarmóti Vesturlands á Akranesi og á opnu félagsmóti Snæfellings á Kaldármelum. Einnig sýndi hann kynbótahross með sóma.
Lárus Ástmar hefur á undanförnum árum staðið í fremstu röð hestaíþróttamanna og með góðum árangri og prúðmannlegri framkomu verið góð fyrirmynd annarra hestamanna.
Íþróttamaður fatlaðra hjá HSH 2004:
Fyrir valinu varð Jón Oddur Halldórsson, Reyni.
Jón Oddur keppir í flokki spastískra T-35 og auk þátttöku í mótum hér innanlands bæði mótum fatlaðra og ófatlaðra þá tók Jón Oddur þátt í Opna breska frjálsíþróttamótinu þar sem hann sigraði bæði í 100 og 200 m hlaupi en meðal keppenda var fyrrum Ólympíu- og heimsmeistarinn Lloyd Upsedell - 100 m hljóp hann á tímanum 13:55 sek og 200 m á tímanum 28:50 sek. Mót þetta var liður í undirbúningi Jóns Odds fyrir Ólympíumót fatlaðra sem fram fór í októbermánuði.
Á Ólympíumóti fatlaðra hafnaði Jón Oddur í 2. sæti í 100 m hlaupi, hljóp á tímanum 13:36 sek og setti nýtt Norðurlanda- og Íslandsmet í sínum flokki og það sama gerði Jón Í 200 m hlaupi sem hann hljóp á tímanum 27.27 sek sem einnig var Íslands- og Norðurlandamet.
Knattspyrnumaður HSH 2004:
Knattspyrnuráð HSH hefur ákveðið að tilnefna Hermann Geir Þórson, Víkingi.
Hermann hefur verið einn af aðalleikmönnum Víkings Ólafsvík sem hafa komist upp um tvær deildir á tveimur árum. Hefur hann verið ötull í því að drífa sína menn áfram og einnig verið duglegur við markaskorun. Hermann er góður karakter sem og fyrirmynd annarra.
Körfuknattleiksmaður HSH 2004:
Fyrir valinu var Hlynur Elías Bæringsson, Snæfelli.
Hlynur er vel að þessari útnefningu kominn, hefur verið máttarstólpi úrvalsdeildarliðs Snæfells í körfuknattleik síðastliðið ár. Hlynur átti stóran þátt í því að lið Snæfells varð deildarmeistari KKÍ síðastliðið vor og lék stórkostlega í úrslitakepninni sem skilaði liðinu 2. sæti. Hlynur lék nokkra landsleiki á árinu og stóð sig með miklum ágætum og er orðinn einn albesti körfuknattleiksmaður landsins, mikill dugnaðarforkur og baráttumaður sem aldrei gefst upp og er öðrum til fyrirmyndar í íþróttinni.
Kylfingur HSH 2004:
Skarphéðinn Elvar Skarphéðinsson, Golfklúbbnum Mostra varð fyrir valinu sem kylfingur HSH fyrir árið 2004. Skarphéðinn átti mjög gott golfár, eitt sitt besta ár frá upphafi, vann HSH mótið sem haldið var hjá Golfklúbbi Staðarsveitar, varð meistari Mostra með nokkrum yfirburðum, stigameistari Mostra og vann að auki mörg opin mót. Skarphéðinn lækkaði í forgjöf á sumrinu, fór úr 3,2 í 2,3. Skarphéðinn hefur verið einn öflugasti kylfingur innan HSH undan farin ár og er því vel að þessu vali kominn.
Sundmaður HSH 2004:
Fyrir valinu varð María Alma Valdimarsdóttir, Snæfelli.
María var stigahæst kvenna á Héraðsmóti HSH í sumar. Keppti í 4 greinum og vann þær allar. Keppti á Íslandsmóti Öldunga í maí og vann 50 m flugsund og 50 m skriðsund í flokki 30-34 ára. Þjálfar hjá Snæfelli.