- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Íþróttamaður ársins 2024
Val á íþróttamanni Grundarfjarðar var kunngert við hátíðlega athöfn í Samkomuhúsi Grundarfjarðar á gamlársdag.
Það er íþrótta- og tómstundanefnd Grundarfjarðarbæjar, ásamt fulltrúum íþróttafélaganna fjögurra, sem velur íþróttamann Grundarfjarðar út frá tilnefningum íþróttafélaga og deilda.
Að þessu sinni voru fjórir afreksíþróttamenn tilnefndir, en það voru þær Anna María Reynisdóttir fyrir golf, Dagný Rut Kjartansdóttir fyrir skotfimi, Sól Jónsdóttir fyrir hestaíþróttir og Alexandra Björg Andradóttir fyrir blak. Allar leggja þær mikinn metnað í sína íþrótt og eru góðar fyrirmyndir.
Fyrir valinu varð Alexandra Björg Andradóttir sem er aðeins 15 ára gömul, en hún hefur sýnt mikla hæfileika og framfarir í blakíþróttinni síðustu ár.
Eftirfarandi texti frá íþróttafélögunum fylgdi tilnefningum um hvern íþróttamann (í stafrófsröð):
Tilnefning frá blakdeild UMFG
Við erum stolt af því að tilnefna Alexöndru Björgu Andradóttur sem íþróttamann Grundarfjarðar 2024. Alexandra er aðeins 15 ára gömul og hefur sýnt ótrúlega hæfileika og miklar framfarir í blakíþróttinni síðustu ár. Alexandra spilar með þremur liðum innan UMFG og er hún er lykilleikmaður í þeim öllum, þ.e. með U16 kvenna liðinu, 6. deild kvenna og 1. deild kvenna.
Í byrjun hausts var hún svo valin í U17 ára landsliðið eftir langar og strangar æfingahelgar sem hún sótti vel. Alexandra keppti með landsliðinu á Norðurlandamóti í Danmörku nú í október og vann liðið brons á því móti. Alexandra átti góðar innkomur með landsliðinu og er reynslunni ríkari eftir ferðina.
Alexandra er vaxandi leikmaður og hefur framtíðina fyrir sér. Hún hefur mikið keppnisskap sem hefur oft verið erfitt að stjórna, en með eldmóði sínum og vinnusemi höfum við trú á því að henni muni takast að verða enn betri liðsmaður og leikmaður á komandi árum. Alexandra er fyrirmynd fyrir aðra unga íþróttamenn og óskum við henni innilega til hamingju með þessa tilnefningu og hlökkum til að fylgjast með henni í framtíðinni.
Tilnefning frá GVG
Anna María Reynisdóttir hefur verið kappsöm á golfvöllum landsins í sumar. Hún hefur lækkað forgjöf sína úr 18,3 í byrjun sumars niður í 13,7 sem er mikið afrek. Hún hefur verið dugleg að mæta á völlinn til æfinga í sumar sem sést á forgjöf hennar. Hún er mikil keppnismanneskja ásamt því að vera góður liðsfélagi. Anna María hefur á mótum sumarsins ýmist verið í verðlaunsætum eða alveg við verðlaunasæti.
Við teljum Önnu Maríu Reynisdóttur vel að því komna að vera kylfingur ársins.
Tilnefning frá Skotfélagi Snæfellsness
Dagný Rut Kjartansdóttir hefur verið einn fremsti keppandi félagsins í skotíþróttum um árabil og þá sérstaklega í PRS skotfimi (e. Precision Rifle Series). Á nýliðnu ári tók Dagný Rut þátt í sex af sjö mótum í Íslandsmeistaramótaröðinni í PRS, sem haldin voru um allt land. Þar keppti hún í verksmiðjuflokki, þar sem karlar og konur keppa í sama flokki. Á þessum sex mótum sem hún tók þátt í vann hún til tvennra gullverðlauna og fékk fjögur silfur. Hún var í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn alveg fram á síðasta mót, en þrjú bestu mótin af sjö telja til stiga sem Íslandsmeistari. Dagný Rut endaði í öðru sæti af þrettán keppendum en þegar öllum sjö mótunum var lokið voru hún og efsti maður jöfn að stigum í fyrsta sæti. Til að skera úr um hvort þeirra stæði uppi sem Íslandsmeistari, var ein þraut úr lokamótinu látin skera úr um úrslitin og því endaði Dagný í öðru sæti með jafn mörg stig og Íslandsmeistarinn. Þá tók hún einnig þátt í árlegu sjómannadagsmóti félagsins í leirdúfuskotfimi.
Tilnefning frá Hesteigendafélagi Grundarfjarðar
Sól Jónsdóttir hefur sýnt að hún er framúrskarandi knapi sem á bjarta framtíð fyrir sér í hestaíþróttum.
Sól keppti á fjölmörgum mótum á árinu og stóð sig mjög vel. Hún sigraði Snæfellingamótaröðina í sínum aldursflokki. Á KB-mótaröðinni varð hún stigahæst í sínum aldursflokki og á Gæðingamóti Snæfellings lenti hún í öðru sæti. Á unglingalandsmóti UMFÍ keppti hún til úrslita í fjórgangi og tölti. Einnig keppti hún á úrtökumóti fyrir landsmót hestamanna. Sól er áhugasöm og metnaðarfull og sinnir sinni íþrótt vel.
Sjá einnig eldri frétt á vefnum.
Við sama tækifæri heiðraði íþrótta- og tómstundanefnd sjálfboðaliða í baklandi íþróttastarfs og tómstunda fyrir óeigingjarnt starf sitt í gegnum árin. Nefndin óskaði eftir samstarfi við íþrótta- og félagasamtök í bænum um tilnefningar sjálfboðaliða í þeirra baklandi og bárust fjórar tilnefningar að þessu sinni og voru þær eftirfarandi:
Tilnefning frá Félagi eldri borgara í Grundarfirði
Kristján Guðmundsson hefur um langt árabil verið gjaldkeri Félags eldri borgara í Grundarfirði og fleiri frjálsra félaga í Grundarfirði og hefur hann séð um uppgjör þeirra endurgjaldslaust. Það er leitun að jafn traustum félaga þegar kemur að umsjón og uppgjöri félaga.
Tilnefning frá Skotfélagi Snæfellsness
Unnsteinn Guðmundsson er tilnefndur sérstaklega í tengslum við uppbyggingu á skotæfingasvæði á árinu 2024 og fyrir önnur sjálfboðaliðastörf.
Unnsteinn var einn af stofnendum Skotfélags Snæfellsness og hefur verið einn öflugasti sjálfboðaliði félagsins í 38 ár. Hann hefur einnig átt stóran þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað á æfingasvæðinu undanfarin ár og oft hefur Unnsteinn séð um að útvega efni og tæki til framkvæmdanna. Hann er ekki að mikla hlutina fyrir sér, heldur tekur bara af skarið og gerir það sem þarf að gera, óumbeðinn, annað hvort einn síns liðs eða fær aðra félagsmenn í lið með sér. Félagið væri ekki eins öflugt og það er í dag ef það væri ekki fyrir störf Unnsteins.
Frekari skýringar:
Það hefði í raun mátt heiðra Unnstein á hverju ári undanfarin ár fyrir hans störf fyrir félagið, en árið í ár var alveg sérstakt. Félagið er í mikilli uppbyggingu á skotsvæðinu og Unnsteinn eyddi öllu sumarfríinu sínu í vinnu á skotsvæðinu. Hann var við vinnu á skotsvæðinu frá morgni til kvölds, ýmist einn síns liðs eða fékk aðra félagsmenn með sér. Hann sá um alla skipulagningu jarðvegsframkvæmda, framkvæmda við vatnslagnir, endurbætur á veginum, steypuvinnu, yfirborðsfrágang og smíðavinnu í skothúsinu svo eitthvað sé nefnt. Unnsteinn átti frumkvæðið að framkvæmdunum, hann sá um að útvega tæki, sá um samskipti við verktaka og sá um að fjármagna framkvæmdirnar að hluta til. Hann sá í raun um framkvæmdirnar allar frá a til ö. Æfingasvæðið fékk algjöra andlitslyftingu í sumar og það er umtalað að þetta sé orðið flottasta skotæfingasvæði á Íslandi. Unnsteinn á allan heiðurinn að þessu, því ef hann hefði ekki tekið af skarið þá hefði lítið verið gert þetta sumarið. Það er ekki sjálfgefið að félagsmenn eyði öllum sumarleyfisdögunum sínum í sjálfboðavinnu. Það er ómetanlegt að eiga félagsmann eins og Unnstein. TAKK UNNSTEINN!
Tilnefning frá GVG, Golfklúbburinn Vestarr Grundarfirði
Ragnar Smári Guðmundsson hefur ávallt verið tilbúinn að aðstoða við ýmis störf á golfvellinum og í fjáröflun þegar til hans er leitað. Golfklúbburinn fór í sitt stærsta verkefni nú í vor. Klúbburinn keypti þá golfvöllinn í Suður-Bár ásamt athafnasvæði af landeiganda. Verkefni sem ekki hefði verið hægt að kljúfa nema með mikilli aðstoð og velvilja þeirra sem leitað var til við þessi kaup. Ragnar lagði fram mikla vinnu við öflun stuðnings við verkefnið. Við teljum Ragnar vera vel að því kominn, að vera sjálfboðaliði ársins.
Tilnefning frá Ungmennafélagi Grundarfjarðar
Sigríður G. Arnardóttir (Sirrý) var formaður UMFG í 8 ár, en lét af störfum sem formaður UMFG á aðalfundi í maí 2024.
Sirrý hafði verið formaður félagsins frá árinu 2018 og hefur hún tekið þátt í uppbyggingu félagsins, m.a. stofnun rafíþróttadeildar ásamt mörgum öðrum mikilvægum verkefnum sem eru hluti af starfi félagsins í dag.
Sirrý á hrós skilið fyrir þann dugnað og það óeigingjarna starf sem hún hefur unnið fyrir félagið á þessum 8 árum sem hún var formaður.
Takk Sirrý fyrir þitt mikilvæga framlag til félagsins!
He´r má sjá þau sem tilnefnd voru taka við viðurkenningum á gamlársdag.
Grundfjarðarbær og samstarfsaðilar óska öllum tilnefndum velfarnaðar og Alexöndru Björgu hjartanlega til hamingju með titilinn!