Harpa Dögg er íþróttamaður Grundarfjarðar 2021
Harpa Dögg er íþróttamaður Grundarfjarðar 2021

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Íþróttamaður Grundarfjarðar var krýndur við hátíðlega athöfn í Sögumiðstöðinni á gamlársdag. 

Það er íþrótta- og æskulýðsnefnd Grundarfjarðarbæjar, ásamt fulltrúum íþróttafélaganna, sem velur íþróttamann Grundarfjarðar úr tilnefningum frá íþróttafélögum og deildum.

Að þessu sinni voru þrír afreksíþróttamenn tilnefndir: Breki Þór Hermannsson fyrir knattspyrnu, Dagný Rut Kjartansdóttir fyrir skotfimi og Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir fyrir hestaíþróttir. Öll leggja þau mikinn metnað í sína íþrótt og eru góðar fyrirmyndir.

Fyrir valinu varð Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir en hún hefur undanfarin ár verið í fremstu röð á landinu í sínum aldursflokki í hestaíþróttum. Harpa Dögg keppir í  Meistaradeild Líflands og æskunnar sem er keppni í hæsta flokki í þessum aldurshópi, en þar sigraði hún fjórgangskeppnina með glæsibrag. Síðastliðin þrjú tímabil hefur hún verið valin til að taka þátt í hæfileikamótun Landssambands hestamanna en þar etja kappi sterkustu knapar landsins í aldursflokki 14-17 ára. Hrapa Dögg þjálfar hrossin sín sjálf og leggur mikinn tíma, metnað og ástríðu í það. Hún er því vel að þessu kjöri komin.

Grundfjarðarbær og samstarfsaðilar óska öllum tilnefndum velfarnaðar í sinni íþrótt og Hörpu Dögg hjartanlega til hamingju með titilinn!

Hér má sjá nokkrar myndir frá athöfninni, sem var hátíðleg en fámenn, vegna samkomutakmarkana - og var send beint út á Facebook-síðu Grundarfjarðarbæjar á gamlársdag.