Á aðventuhátíð Kvenfélagsins Gleym mér ei s.l. sunnudag var íþróttamaður ársins 2010 valinn. Að þessu sinni hlaut Þorsteinn Már Ragnarsson titilinn fyrir glæsilegan árangur í knattspyrnu. Hann spilaði 34 leiki í ár með Víking frá Ólafsvík, í deildarbikar, VISA-bikar og í 2. deild. Hann skoraði alls 25 mörk og þar af 18 í deildinni og er næst markahæsti leikmaðurinn. Leikmenn í 2. deild kusu Þorstein efnilegasta leikmanninn og völdu hann í lið ársins. Að auki var hann valinn efnilegasti leikmaðurinn í lokahófi Víkings. Þess má einnig geta að í haust hefur hann verið til reynslu hjá knattspyrnuklúbbnum Vejle Boldklub í Danmörku. Þorsteinn er góð fyrirmynd fyrir yngri íþróttaiðkendur.

 

Einnig voru tilnefndar þær Sunna Björk Skarphéðinsdóttir fyrir afburðaárangur í blaki og Hugrún Elísdóttir fyrir glæsilega takta á golfvellinum.