Sunna Njálsdóttir, Guðlaug Guðmundsdóttir, Jóna Ragnarsdóttir, Friðbjörg Matthíasdóttir og Dóra Aðalsteinsdóttir ásamt nemendum.

 

Í síðustu viku heimsótti fríður hópur kvenna í íslenskum þjóðbúningum Grunnskóla Grundarfjarðar. Konurnar heimsóttu nemendur í yngstu bekkjum skólans og sýndu þeim bæði upphlut og peysuföt. Af þessari heimsókn lærðu nemendur m.a. að í gamla daga voru peysufötin spariföt en konur voru í upphlut þegar þær voru við vinnu. Einnig sáu krakkarnir að enginn er eins, hver og einn búningur er sérstakur. Tilefni þessarar heimsóknar var að nemendur í 3. bekk eru að læra um helstu einkenni lands og þjóðar. Konurnar vöktu að vonum mikla athygli og aðdáun nemenda og starfsfólks skólans.