- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Síðastliðinn laugardag var haldið íbúaþing í Grundarfirði, undir yfirskriftinni Grundarfjörður í sókn. Dagskrá þingsins var tvískipt, annars vegar erindi og hins vegar umræður. Lagt var upp með að horfa til möguleika og tækifæra en ekki á hindranir. í umræðu um sjávarútveg kom m.a. þetta fram „sjávarútvegur er byggðunum okkar mikilvægur áfram, ...við þurfum að þekkja út á hvað hann gengur og tækifærin í honum til framtíðar, opna umræður og huga fólks fyrir því“.
Skilaboðin um ferðaþjónustu voru þau að nýta sérstöðuna og gera meira úr henni og halda áfram að byggja á stefnu Grundarfjarðarbæjar í ferðaþjónustu. Einnig kom fram áhugi á að auka tengsl við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul og nýta tækifæri sem hann skapar fyrir allt Snæfellsnes. Þá var rætt um hvernig mætti taka upp þráðinn í því að bjóða afþreyingu fyrir gesti skemmtiferðaskipa, með þátttöku ungs fólks og eldri borgara.
Ungt fólk var í öndvegi á þinginu, fjallað var um skemmtilegan félagsskap, Snæfríði, sem tengist Svæðisgarði Snæfellinga og vill vinna að því að gera Snæfellsnesið enn meira aðlaðandi fyrir ungt fólk að snúa heim og setjast hér að, eftir nám. Í umræðu um Bókasafn í Sögumiðstöð var ein af fjölmörgum hugmyndum sú að bjóða upp á aðstöðu fyrir hópa til að vinna verkefni tengd sögu byggðarlagsins og tengja það ljósmyndum.
Vinna við skólastefnu sem nú fer fram var kynnt og í umræðum var kallað eftir meiri fréttum af skólastarfi, út í samfélagið.
Steinatjörn kom til umræðu bæði hjá ungum og öldnum, draumur um að endurheimta tjörnina, (sem reyndar er að gerast af náttúrulegum ástæðum) og draumur um gosbrunn, skautasvell og fleira. Þessi umræða tengdist hugmyndum um Paimpol garðinn, sem kominn er vísir að.
Loks voru viðraðar hugmyndir um að nýta vindorku til rafmagnsframleiðslu, sem tilraunastarfsemi, jafnvel með hlutafélagi heimamanna.
Stýrihópur mun nú vinna frekar úr skilaboðum þingsins og fylgja eftir þeim hugmyndum sem fram komu.