Eins og komið hefur fram á vef Grundarfjarðarbæjar að undanförnu hefur bæjarstjórn ákveðið að boða til íbúaþings, laugardaginn 5. mars n.k.

Stýrihópur vinnur að undirbúningi og er nú að móta dagskrá þingsins, þar sem ætlunin er að móta framtíðarsýn Grundfirðinga.

Meginviðfangsefnin eru tvö, annars vegar skipulagsmál og mótun umhverfis og hins vegar fjölskyldumálefni – fjölskyldustefna, þ.e. að afla hugmynda vegna vinnu við setningu fjölskyldustefnu, sem bæjarstjórn hefur samþykkt að leggja í.

Ráðgjafarfyrirtækið ALTA ehf. var fengið til að stýra undirbúningi, framkvæmd þingsins og úrvinnslu niðurstaðna, en starfsmenn ALTA hafa mikla reynslu af stjórnun íbúaþinga.

 

Samráð og hugmyndavinna

Á íbúaþingi er leitað til íbúanna um álit, hugmyndir og áherslur, sem nýst geta bæjarstjórn og nefndum við ákvarðanir um málefni bæjarins og við forgangsröðun verkefna, auk þess sem aðrir aðilar, fyrirtæki og félagasamtök, geta fengið góðar hugmyndir eða áskoranir á slíkum vettvangi. Niðurstöður þessa íbúaþings Grundfirðinga skila bæjarstjórn vonandi efnivið í hugsanlegar breytingar á gildandi aðalskipulagi og inn í vinnu við setningu fjölskyldustefnu eins og fyrr sagði.

Á vefnum www.ibuathing.is er að finna ýmsan fróðleik um íbúaþing. Þar segir m.a.:

Aðferðin sem Alta notar við íbúaþing er kölluð „samráðsskipulag“ og er þrautreynd erlendis. Samráðsskipulag er aðferð sem beitt er til þess að virkja fólk til ákvarðanatöku eða til þess að laða fram hugmyndir þess um tiltekin viðfangsefni. Aðferðin gefur öllum sem þess óska, jafnt íbúum, fagfólki sem og öðrum hagsmunaaðilum jafna möguleika á að leggja sitt af mörkum til mótunar skipulags eða tiltekinnar starfsemi, t.d. sveitarfélags.

Þátttakendur þurfa ekki að þekkja neitt til skipulagsmála eða annarra umfjöllunarefna þingsins. Unnið verður í vinnuhópum þar sem farið er í gegnum hugarflug með þátttakendum. Þeir skrifa skoðanir sínar á blað og þurfa ekki að taka til máls frekar en þeir vilja. Einnig verður sest yfir skipulagskort þar sem þátttakendur fá tækifæri til að teikna upp hugmyndir sínar með aðstoð arkitekta. Niðurstöður eru dregnar saman í þinglok, en nokkru síðar verður svo haldinn opinn fundur þar sem úrvinnsla ALTA, byggð á hugmyndum þátttakendanna, verður kynnt í máli og myndum.   

Þátttaka allra

Þingið hefur fengið yfirskriftina Bjóðum tækifærunum heim og vísar til þess að samfélagið okkar stendur að vissu leyti á þröskuldi nýrra tækifæra þar sem margt hefur orðið til að bæta búsetuskilyrði á svæðinu. Við þurfum hinsvegar sjálf að greiða tækifærunum leið og grípa þau á lofti.

Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki eru hvött til að nýta þetta tækifæri til að hafa áhrif á mótun samfélags og umhverfis okkar. Tökum daginn frá!

Frekari upplýsingar, m.a. um umfjöllunarefni þingsins, birtast á vef Grundarfjarðarbæjar, www.grundarfjordur.is og hér í blaðinu fram að þingi.

 

Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri