- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Á íbúafundi í nóvember gátu þátttakendur komið því á framfæri við bæjarstjórn, hvar þeir telja að slá megi af kröfum í starfsemi bæjarins. Þessar ábendingar voru teknar til skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar og hafa sumar komið til framkvæmda og aðrar ekki.
· Ekki verða neinar gatnaframkvæmdir, nema eftir því sem nauðsyn krefur og í sumar verða færri starfsmenn í áhaldahúsi. Líklega verður eitthvað dregið úr slætti á opnum svæðum en þó lögð áhersla á að halda bænum snyrtilegum. Bæjarstjórn hefur skipað starfshóp um skólamál sem m.a. á að skoða sameiningu skólastofnana.
· Á fundinum var talsvert rætt um sameiningu sveitarfélaga og má geta þess að stóru bæjarfélögin á norðanverðu Snæfellsnesi hafa tekið upp viðræður um mögulegt samstarf á ýmsum sviðum.
· Dregið hefur verið úr götulýsingu.
· Klukka er á ljósum á sparkvelli sem slekkur ljós kl. 22 og völlurinn er ekki lengur upphitaður.
· Fram komu hugmyndir um að draga úr snjómokstri, en ekki var talið mögulegt að gera það.
· Ekki var heldur vilji til þess, að svo stöddu, að skerða þjónustu í heilsdagsskóla eða að hækka aldursmörk í leikskóla.
· Stungið var upp á fjölgun fjarfunda í stjórnsýslunni og að draga úr veitingum á fundum. Fjarfundir eru raunhæfur möguleiki eftir því sem eykst samstarf innan Snæfellsness – sem vonandi verður. Veitingar á fundum eru hófstilltar og kostnaður í samræmi við það sem gengur og gerist, en þó alltaf gott að hafa kveikt á sparnaðarvitundinni.
· Nefnd voru ýmis atriði þar sem frumkvæðið er í höndum íbúanna sjálfra og bærinn getur hvatt til dáða. Þar má nefna heilsueflingu, sameiningu íþróttafélaga á Snæfellsnesi, sjálfboðavinnu og “…að hver og einn sópi og týni rusl fyrir framan sitt hús og reita og rækta tré eins og grænir gera :)”.
· Rætt var um að leggja áherslu á eflingu atvinnulífsins og nýta krafta þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í ákveðin átaksverkefni. Þetta verður tekið til frekari skoðunar.
· Þá skal haldið til haga einni hugmynd sem gott er að eiga í handraðanum ef harðnar enn frekar á dalnum í fjárhag og veðurfari: „Koma upp hestasteinum við banka og heilsugæslu!”