- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Eins og fram hefur komið hér á vefnum hefur verið ákveðið að halda íbúaþing í Grundarfirði 5. mars n.k.
En hvað er íbúaþing? Er það svona dæmigerður fundur þar sem sama fólkið og venjulega tekur til máls og hinir láta lítið fyrir sér fara? Eða, eiga skoðanir allra þátttakenda eftir að skila sér inn í niðurstöðurnar? Er þetta eitthvað sem ég hef vit á, eitthvað sem höfðar til mín? Til hvers er verið að halda íbúaþing - og hvað kemur út úr því?
Íbúaþing er aðferð sem notuð hefur verið til þess að gefa íbúum og öðrum hagsmunaaðilum sem tengjast tilteknu svæði tækifæri til þess að hafa áhrif á stefnumótun eða ákvarðanatöku sem snerta umhverfi sitt. Íbúaþing sem byggist á aðferðafræði Alta er skilvirk leið til að hafa samráð við íbúa um stefnumótun, skipulag eða önnur viðfangsefni ríkis eða sveitarfélaga. Aðferðin sem Alta notar við íbúaþing er kölluð "samráðsskipulag" og er þrautreynd erlendis. Samráðsskipulag er aðferð sem beitt er til þess að virkja fólk til ákvarðanatöku eða til þess að laða fram hugmyndir þess um tiltekin viðfangsefni. Aðferðin gefur öllum sem þess óska, jafnt íbúum, fagfólki sem og öðrum hagsmunaaðilum jafna möguleika á að leggja sitt af mörkum til mótunar skipulags eða tiltekinnar starfsemi t.d. sveitarfélags.
Á vef ráðgjafafyrirtækisins ALTA, www.alta.is, er að finna ýmsar upplýsingar um fyrirtækið og á vefnum www.ibuathing.is er að finna frásagnir af íbúaþingum sem haldin hafa verið á vegum ALTA vítt og breitt um landið. Þar er líka að finna myndir af íbúaþingum og eins og jafnan, þá segja myndir meira en mörg orð.
Umfjöllunarefni íbúaþings Grundfirðinga munu snúa að tveimur meginmálum eða „þemum“ sem eru annars vegar skipulagsmál bæjarins og fjölskyldustefna.
Umhverfisnefnd og bæjarstjórn hafa lagt upp með tiltekin umfjöllunarefni, en reyndar er það svo að skipulag og umhverfi bæjarins er allt undir þegar til íbúaþingsins kemur.
Bæjarstjórn hefur einnig samþykkt að vinna að setningu fjölskyldustefnu, en í henni myndi samfélagið (ekki bara stofnanir bæjarins) setja sér markmið og finna leiðir til að styðja við bakið á fjölskyldum í sveitarfélaginu í ýmsu tilliti, s.s. við uppeldi og skólagöngu barna.
Lesendur eru hvattir til að kynna sér umfjöllun á vefnum um íbúaþing. Meira verður birt hér á vefnum á næstunni um málefnið.