Grundarfjarðarbær efnir til hugmyndasamkeppni um nýtt nafn á Sögumiðstöð, Grundargötu 35. Á síðustu mánuðum hafa miklar breytingar á starfsemi hússins átt sér stað. Húsið gegnir nú hlutverki menningar- og samfélagsmiðstöðvar. Þangað geta félagasamtök og klúbbar leitað og fengið aðstöðu fyrir fundi.

Bókasafnið er sjálfstætt starfandi í húsinu og hefur þannig færst nær kjarna bæjarins og hefur aðsókn aukist frá því að bókasafnið flutti um set.

Eyrbyggja, Sögumiðstöð ber áfram ábyrgð á sýningum í húsinu en þar er að finna bátinn Brönu og verkstæði með gömlum munum. Einnig er í húsinu leikfangasafnið Þórðarbúð. Bæringsstofa er nýtt til fyrirlestra, funda og sýninga á myndum Bærings. Ábyrgð á myndum Bærings Cesilssonar í höndum markaðs- og menningarfulltrúa fyrir hönd Grundarfjarðarbæjar.

Bærinn leitar eftir tillögum að nafni á húsið sem væri lýsandi fyrir þá starfsemi sem þar á sér stað.

Hugmyndir ásamt rökstuðningi skal skilað á bæjarskrifstofuna, Grundargötu 30 eða á netfangið alda@grundarfjordur.is Frestur til að skila inn hugmyndum er til 1. mars 2014. Menningarnefnd mun fara yfir tillögurnar sem síðan verða lagðar fyrir bæjarstjórn.