- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Eftirfarandi frétt birtist á Skessuhorni.is:
Ungmenni af Vesturlandi gerðu góða ferð á unglingalandsmót UMFÍ sem haldið var á Laugum í Reykjadal um og fyrir liðna helgi. Lið frá HSH, UMSB, UDN og Akranesi voru meðal keppenda, alls hátt á annað hundrað krakkar. Árangur Vestlendinga var ágætur og komust margir þeirra á verðlaunapalla. Sérstök háttvísisverðlaun, eða fyrirmyndarbikarinn, hlaut 47 manna lið HSH en viðurkenningin er veitt fyrir framúrskarandi umgengni, háttvísi og prúða framgöngu.
Að sögn Garðars Svanssonar, annars af fararstjórum HSH fólks, er hann afskaplega stoltur yfir þessari viðurkenningu. Sagði hann jafnframt að heimamenn í Þingeyjarsýslum geti verið stoltir yfir góðu móti sem gekk í alla staði vel og var hnökralaust í undirbúningi og framkvæmd allri.
Myndir frá mótinu er að finna á bls. 6 í Skessuhorni sem kemur út [í dag] en í blaði næstu viku verða helstu afrek og úrslit Vestlendinga tíunduð, þar sem samantekt þeirra lá ekki fyrir áður en blaðið fór í prentun.
Á myndinni má sjá lið HSH með fyrirmyndarbikar mótsins á Laugum.