Heilbrigð sál í hraustum líkama!

Hreystivika verður haldin í Grundarfirði vikuna 11.-17. janúar, þriðja árið í röð. Tilgangur hreystivikunnar er að vekja athygli á og efla almennt heilbrigði og hreysti bæjarbúa, jafnt líkamlegt sem andlegt. Á baksíðu Jökuls er dagskrá vikunnar sem er samsett með það í huga að sem flestir finni eitthvað við sitt hæfi. 

 

 Sigurborg Kr. Hannesdóttir verður með opna tíma í byrjun vikunnar á Læk í jóga og 5rytma dansi en einnig verður hún með hreyfistund á dvalarheimilinu Fellaskjóli.

Landsliðsþjálfari U-17 í knattspyrnu, Halldór Björnsson, kemur til Grundarfjarðar mánudaginn 11. janúar. Hann byrjar á að heimsækja og spjalla við nemendur grunnskólans um íþróttir, metnað og hvað þarf til að ná árangri í íþróttum almennt. Seinni part dagsins mun Halldór stýra æfingum fyrir 3.-10. bekk í íþróttahúsinu í Grundarfirði og þangað eru fótboltakrakkar af öllu Snæfellsnesi velkomnir.

 

Líkamsræktin lætur ekki sitt eftir liggja og býður upp á fría prufutíma í ræktina og í hóptíma sem fara fram í húsnæði Ragnars og Ásgeirs. Útsala á íþróttafatnaði hefst um leið og hreyfivikan svo nú er heldur betur tilefni til að kíkja í ræktina.

Hugarleikfimin verður ekki útundan í hreystivikunni því það verður skraflað á Kaffi Láka miðvikudagskvöldið 13. janúar. Sama kvöld verður Skraflfélag Grundarfjarðar formlega stofnað. Þangað eru allir velkomnir sem hafa áhuga á að spila skrafl og ef þú kannt það ekki, þá færðu leiðsögn á staðnum. Þeir sem eiga spil mega gjarnan kippa þeim með sér.

Fimmtudagskvöldið 14. janúar verður Valdimar Þór Svavarsson, framkvæmdastjóri og ráðgjafi hjá Lausninni, með fyrirlestur um meðvirkni undir yfirskriftinni „Verum við sjálf“. Kvenfélagið Gleym mér ei býður upp á þennan fyrirlestur og búast má við góðri þátttöku enda er þetta efni sem snertir okkur öll.

Heilsutilboð verða í Samkaup og á RúBen í tilefni af hreystivikunni og á bókasafninu mun liggja frammi heilsutengt efni.

Hlúum vel að líkama og sál í hreystivikunni sem og aðra daga!