- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Grundfirðingar hafa löngum verið stoltir af sveitarfélaginu sínu, fallegu landslagi og umhverfi. Það hefur auk þess verið metnaðarmál íbúanna að hafa snyrtilegt og fínt í kringum sig og leggja þannig sitt af mörkum til að skapa samfélag þar sem okkur líður vel og við getum af stolti boðið heim gestum.
Okkur hefur á síðustu árum gengið ágætlega í þessari viðleitni – en við getum samt alltaf gert betur.
Umhverfisrölt þriðjudagskvöld 15. júní
Gönguferð með bæjarstjóra og starfsmönnum bæjarins.
Lagt er af stað frá Kaffi 59 kl. 20.30. Meðal annars gengið eftir reiðveginum vestanverðum. Íbúar eru hvattir til að mæta í gönguna, fræðast og koma skoðunum sínum og ábendingum um umhverfismál á framfæri.
Vinnustaðaheimsóknir
Starfsmenn bæjarins ferðast um með „áróður“ fyrir fegrun bæjarins!
Tökum til!
Alla daga vikunnar ætlum við að nota vel til að hreinsa og snyrta í kringum okkur. Til dæmis er tilvalið að .... fara í beðin, klippa trén, hreinsa lóðina, lagfæra girðinguna, tína fokrusl sem dagað hefur uppi í næsta nágrenni, o.s.frv. Setja má rusl út fyrir lóðarmörk í pokum sem síðar verða sóttir ....
Losum okkur við bílhræ!
Bæjarstarfsmenn eru tilbúnir að aðstoða við að koma gamla bílgreyinu á sorpmóttökustöðina. Vinsamlegast hafið samband við Geirfinn verkstjóra áhaldahúss (s. 691-4343) til að fá upplýsingar um tilhögun.
Salt á óæskilegan gróður meðfram girðingu/gangstétt
Það er til fyrirmyndar þegar íbúar hreinsa gras og illgresi sem á það til að vaxa meðfram girðingarveggjum og gangstéttum. Gott er að strá grófu salti ofan í til að hindra vöxt gróðurs. Ef þú kemur með fötu í áhaldahúsið, útvegum við þér gróft salt til verksins.
Starfsmenn áhaldahúss sækja rusl að lóðarmörkum
Föstudaginn 18. júní milli kl. 16 og 18 (lengur ef með þarf) munu starfsmenn áhaldahúss sækja rusl frá heimilum, sem látið hefur verið út fyrir lóðamörk.
Dreifbýli – sveitin
Á döfinni er að hreinsa rusl meðfram þjóðvegum utan þéttbýlisins (vinnuskóli). Lýst er eftir áhugasömum hópum eða félagasamtökum til að taka að sér hreinsun rusls í fjörum (gegn greiðslu).
Ennfremur er verið að kanna stöðu mála á bæjum í sveitinni, hverjir þurfa að losna við rusl, hve mikið og hvað er um að ræða. Bærinn er tilbúinn að aðstoða við framkvæmdina. Bændur/ábúendur eru beðnir um að hafa samband við verkstjóra áhaldahúss í síma 691-4343 til að fá upplýsingar um fyrirkomulag og til að ræða um framkvæmdina á þessu.
Áfanga lýkur – verkið heldur áfram
Föstudaginn 19. júní ætlum við að fagna vel unnu verki í þessum áfanga, kl. 18.00 við Sögumiðstöð. Verkið heldur hinsvegar áfram, af nógu er að taka. Grundfirðingar munu að sjálfsögðu halda áfram að snyrta og hreinsa í allt sumar, starfsmenn bæjarins sem og aðrir.
Samkeppni í fegrun – ,,Extreme makeover“!
Sett verður á laggirnar dómnefnd (ekki bæjarstarfsmenn!) sem mun veita sérstök verðlaun til þess/þeirra sem þykja standa sig vel í tiltektinni í sumar. Hægt er að taka þátt í keppninni með því að senda inn myndir sem teknar eru FYRIR og EFTIR tiltekt/málun/hreinsun/o.s.frv. Vinsamlegast sendið inn myndir og nafn keppanda (og jafnvel lýsingu á verkinu) á netfangið orri@grundarfjordur.is eða leggið inn á bæjarskrifstofu. Sérstök verðlaun verða afhent á hátíðinni „Á góðri stund“ í lok júlí. Þetta er nú bara til að reyna að hafa svolítið gaman!
Hefurðu hugmynd?
... eða ábendingu? Komdu henni á framfæri við starfsmenn bæjarins, í umhverfisröltinu, eða með því að hringja (bæjarskrifstofa s. 430 8500, verkstjóri áhaldahúss 691 4343 og byggingafulltrúi 690 4343), eða senda tölvupóst:
Aðrar gagnlegar upplýsingar:
Opnunartími sorpmóttökustöðvar við Ártún er alla virka daga kl. 16.30 til 18 og laugardaga kl. 10-12. Föstudaginn 18. júní verður stöðin opin frá kl. 13.00 til 18.00.
Hjá fyrirtækinu Ragnari og Ásgeiri, við Sólvelli, er tekið á móti gömlum símaskrám til endurvinnslu. Opnunartími er frá 8-12 og 13-16 alla virka daga. Á sama stað er líka hægt að koma notuðum fatnaði til Rauða Krossins.
Þar er líka tekið á móti gosflöskum og dósum til endurvinnslu á mánudögum milli kl. 14 og 16.
Með baráttukveðju og von um gott gengi í tiltektinni,
Grundarfirði, 14. júní 2004
Bæjarstjóri – áhaldahús – byggingafulltrúi