Bjartasti tími ársins er genginn í garð og við viljum hafa snyrtilega og fallega byggð í Grundarfirði sem er okkur öllum til sóma.

 

Dagana 21. - 25. maí verður hreinsunarátak í Grundarfirði.  Allir umráðamenn fasteigna og mannvirkja eru eindregið hvattir til þess að fjarlægja alla hluti sem hætt er að nota og eru ónýtir.  Starfsmenn áhaldahúss munu fara um bæinn og hirða rusl í sorppokum eða snyrtilega umbúið sem staðsett verður við lóðamörk.

 

Jarðvegsgámur hefur verið staðsettur á Gilóseyrum fyrir ofan íþróttavöllinn.  Þangað er hægt að fara með og losa gróðurúrganginn úr garðinum.  Aðgengi að gáminum er auðvelt og hægt er að sturta beint úr kerrum í hann.  Gámurinn er eingöngu ætlaður fyrir gróðurúrgang, vinsamlegast setjið ekki plastpoka eða annað óskylt efni í hann.

 

Talsvert ber á því að möl úr innkeyrslum berist inn á göturnar.  Nauðsynlegt er að taka á þessu og bæta úr.  Viðkomandi götur verða heldur ósnyrtilegar yfir að líta og svo skemmir mölin malbikið og gerir holur í það.  Umráðamenn fasteigna sem þetta á við um, eru hvattir til þess að bæta úr þessu eins og mögulegt er.

 

Innan skamms verður tilbúið frálagssvæði við Hjallatún.  Þar verður unnt að fá geymda hluti gegn gjaldi sem viðkomandi eru ekki að nota en vilja ekki farga.  Þetta verður nánar auglýst þegar svæðið verður fullbúið.

 

Í tilefni af átakinu verður gámastöðin í átaksvikunni opin til kl. 19.00 frá mánudegi til föstudags.

 

Nú er tilvalið að hreinsa og snyrta umhverfið!  Götur, hverfi eða hópar eru hvattir til að leggjast á eitt við að fegra umhverfi sitt.

 

Hefur þú einhverjar spurningar eða ábendingar um það sem betur má fara á opnum svæðum í bænum?  Hafðu samband við verkstjóra áhaldahússins í síma 691-4343.

 

Grundarfjarðarbær

Áhaldahús