Í tilefni af frétt á vef Bæjarins besta í dag, vill hafnarstjórn Grundarfjarðarhafnar koma eftirfarandi á framfæri.

 

Í bréfi til Sjávarútvegsráðuneytisins þann 15. júní sl. óskaði hafnarstjórn Grundarfjarðar eftir því að... ,,ráðuneytið taki Grundarfjarðarhöfn út af skrá yfir löndunarhafnir vegna hrefnuveiða” eins og sagði orðrétt í bréfinu.

 

Forsendur beiðninnar eru þær, að í bréfi frá Ríkislögreglustjóra til allra lögreglustjóra var í upphafi yfirstandandi hrefnuveiðitímabils hvatt til aukins eftirlits vegna væntanlegra hrefnuveiða. Í sama bréfi fylgdi upptalning á 13 mögulegum löndunarhöfnum hrefnuveiðiskipa, og var Grundarfjarðar­höfn talin þar á meðal.

 

Grundarfjarðarhöfn hefur undirgengist skyldur um hafnavernd samkvæmt ákvæðum nýrrar alþjóðasamþykktar um siglingavernd. Ákvæðin ná meðal annars til skemmtiferðaskipa og þar sem Grundarfjarðarhöfn er viðkomustaður margra skemmtiferðaskipa, hefur höfnin þurft að setja sér sérstaka verndaráætlun og leggja í kostnaðarsamar ráðstafanir til að uppfylla skyldur skv. hafnavernd.

 

Hvalveiðiskip eru skilgreind „vopnuð“ meðan á veiðunum stendur og það eitt og sér, hefur í för með sér ákveðnar skyldur hafnaryfirvalda skv. fyrrgreindum reglum.

 

Hafnaryfirvöld hafa ekki óskað eftir því að vera flokkuð sem sérstök löndunarhöfn fyrir hrefnuveiðiskip, skv. formlegri eða óformlegri flokkun, sem aldrei hefur verið borin undir hafnarstjórn og hafnarstjórn veit ekki hverjum aðilum sú flokkun er aðgengileg.

 

Fyrrgreind beiðni til sjávarútvegsráðuneytis var því einföld ósk hafnaryfirvalda um hlutleysi í því hvaða skipum höfnin þjóni og verður að skoðast í því ljósi að það er í valdi hverrar hafnarstjórnar að ákveða og heimila skipakomur í höfnina.

 

Með fyrrgreindri beiðni sinni til sjávarútvegsráðuneytisins var hafnarstjórn á engan hátt að taka afstöðu til hrefnuveiða og vill sérstaklega taka fram, að hún lýsir yfir stuðningi við Hvalarannsóknaáætlun Hafrannsóknastofnunar og vísindaveiðar þær sem nú fara fram.

 

Fréttir um að hafnarstjórn hafi bannað hrefnuveiðiskipum að koma til Grundarfjarðar eru rangtúlkanir á erindi hafnarstjórnar til sjávarútvegsráðuneytis og hástemmdar yfirlýsingar í frétt BB í dag, eru viðbrögð langt umfram það sem efni standa til að mati hafnarstjórnar.

 

Grundarfirði, 23. júní 2004,

f.h. hafnarstjórnar Grundarfjarðarhafnar,

 

Björg Ágústsdóttir

hafnarstjóri

 

 

 

Til að lesa frétt BB smellið hér.