- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Umhverfisfulltrúi Snæfellsness í samstarfi við Norska húsið–BSH efnir í fyrsta sinn til samkeppni fyrir íbúa Snæfellsness um hönnun á vistvænum, heimatilbúnum tauinnkaupapokum. Samkeppnin er unnin í tengslum við sýninguna (v)ertu græn(n)!? þar sem hugtakið sjálfbærni er í forgrunni. Markmið sýningarinnar er að safna saman grænum hlutum úr daglegu lífi, sýna þá og draga fram „græna“ eiginleika þeirra.
Markmið hönnunarsamkeppninnar er að auka skilning, þekkingu og áhuga allra á endurnýtingu og auka notkun á taupokum í stað plastpoka. Samkeppnin felst í því að hanna taupoka úr efni sem nú þegar er til á heimilinu, endurnýta t.d. gömul föt, sængurver, lök eða hvað sem hverjum og einum dettur í hug að nota. Pokinn verður að hafa burðargetu yfir 8 kg. Verðlaun verða veitt fyrir skemmtilegustu og frumlegustu hönnunina.
Skila þarf inn pokunum til Norska hússins á tímabilinu 19. – 31. júlí. Myndir af þeim munu síðan birtast á facebook síðu Norska hússins þar sem hægt verður að greiða atkvæði.
Harpa Auðunsdóttir, umhverfisfulltrúi Snæfellsness (harpa@nsv.is)