- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í maí sl. staðfesti Siglingastofnun Íslands formlega verndaráætlun Grundarfjarðarhafnar, skv. ákvæðum alþjóðasamþykktar um siglingavernd. Í lok júní var svo staðfest að höfnin hefði uppfyllt skilyrði reglna um hafnavernd. Grundarfjarðarhöfn var þannig með fyrstu íslensku höfnunum til að ljúka gerð verndaráætlunar og fá staðfestingu á gildi hennar og tilheyrandi ráðstöfunum.
Forsaga
Siglingaverndin byggist á nýjum alþjóðlegum ákvæðum sem gera kröfur um tilteknar aðgerðir um borð í skipum og í höfnum; aðgerðir gegn ógnunum og ólögmætum athöfnum.
Siglingaverndin skiptist í skipavernd, farmvernd og hafnavernd, en hafnaryfirvöld hafa tekið þátt í að uppfylla reglur og ákvæði um hið síðastnefnda.
Forsaga alls þessa er sú að í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001 fór af stað umræða á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO, um með hvaða hætti koma mætti í veg fyrir að skip yrðu notuð til hryðjuverka á önnur skip, mikilvæg mannvirki eða jafnvel borgir.
IMO, sem er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna, samþykkti í desember 2002 kröfur um sérstakar ráðstafanir til að auka og efla siglingavernd í skipum sem eru í alþjóðlegum siglingum og hafnavernd í höfnum sem þjóna slíkum skipum. Þessi ákvæði eiga að vera komin að fullu til framkvæmda þann 1. júlí 2004.
Siglingavernd
Ákvæðin um siglingavernd ná til allra skipa í alþjóðlegum siglingum sem mælast stærri en 500 brúttotonn, önnur en fiskiskip og herskip. Þetta þýðir að almenn kaupskip, olíuflutningaskip, skemmtiferðaskip og önnur slík skip sem eru í förum milli landa falla undir þessi nýju ákvæði.
Hafnavernd
Að auki gilda þessi nýju ákvæði um allar hafnir sem þjóna fyrrgreindum skipum. Hér á landi eru um 30 hafnir eða viðlegukantar þar sem kaupskip í alþjóðlegum siglingum koma til hafnar. Aðeins hluti þessara hafna þarf væntanlega að fullnægja þessum kröfum að staðaldri. Þetta skýrist af því að sumar þessara hafna taka á móti skemmtiferðaskipum og það aðeins yfir sumartímann. Þá er umferð skipa um margar aðrar hafnir þannig að þangað koma kaupskip aðeins tilfallandi t.d. við útskipun á mjöli og lýsi.
Grundarfjarðarhöfn tekur þátt
Það er háð ákvörðunum hafnaryfirvalda á hverjum stað hvort höfnin undirgengst þessar reglur, en þær hafnir sem ekki gera það munu ekki geta tekið á móti og þjónað skipum í alþjóðlegum siglingum eftir 1. júlí 2004.
Ákvörðun hafnarstjórnar Grundarfjarðarhafnar um að undirgangast þessi ákvæði og leggja í umfangsmikla vinnu við innleiðingu reglnanna, byggðist á því að höfnin vill geta tekið á móti skipum í alþjóðlegum siglingum, t.d. skemmtiferðaskipum og farmskipum, s.s. skipum sem landa hér frosnum sjávarafurðum til vinnslu. Við ákvörðun um að leggja í kostnaðarsama lengingu stóru bryggju fyrir nokkrum árum var það einmitt haft í huga að höfnin yrði þá vel í stakk búin til að taka á móti slíkum skipum, sem gætu aukið tekjur hafnarinnar og annarra þjónustuaðila.
Hvað felst í hafnavernd?
Á vef Siglingastofnunar Íslands, www.sigling.is, er að finna ýmsan fróðleik um siglingavernd. Það sem Grundarfjarðarhöfn hefur þurft að gera til að uppfylla skyldur sínar skv. fyrrgreindum reglum er m.a. vinna áhættumat og útbúa verndaráætlun fyrir höfnina. Það er áætlun og skipulag hafnarinnar um það hvernig eigi að framfylgja hafnaverndinni og starfa skv. þessum nýju reglum. Áætlunin er samin af Hafsteini Garðarssyni hafnarverði og var mikil vinna lögð í hana. Hafsteinn er einmitt „verndarfulltrúi“ Grundarfjarðar en í því felst að hann hefur umsjón með framkvæmd hafnarverndarinnar. Hafsteinn hefur sótt sérstök námskeið og fundi vegna þessa. Höfnin þurfti að leggja í nokkrar ráðstafanir sem nú eru að verða fólki sýnilegar, t.d. þurfti að koma upp girðingu sem mun hafa það hlutverk að loka af hafnarsvæði þegar skip koma í höfn sem falla undir reglurnar. Þannig verður girt af ákveðið „verndarsvæði“ fremst á stóru bryggju þegar skemmtiferðaskip koma í höfn, um 20 metrum frá stefni skips sem liggur við bryggju. Umferð um þetta svæði verður takmörkuð meðan á dvöl skipsins stendur. Einnig þurfti að koma upp eftirlitsmyndavél og gera ýmsar aðrar ráðstafanir til að framfylgja ákvæðum reglnanna.
Ég vil leyfa mér að geta þess að Grundarfjarðarhöfn hefur fengið sérstakt hrós frá Siglingastofnun fyrir það hve vel og skipulega hefur verið unnið að innleiðingu þessara reglna og undirbúningi öllum. Höfnin er meðal fyrstu (ef ekki fyrst!) til þess að ljúka undirbúningi og uppfylla skyldur sínar skv. reglum um hafnaverdn. Vil ég fyrir hönd hafnarstjórnar sérstaklega þakka Hafsteini Garðarssyni vel unnið verk og metnað í þessum efnum.
Ljóst er að reglur hafnaverndar og allt sem þeim fylgir, s.s. varnargirðingar, takmörkun umferðar og tilheyrandi varúðarráðstafanir, eru okkur Íslendingum framandi. Í stuttu máli má þó segja, að allt sé þetta afleiðing af breyttri heimssýn, eftir 11. september 2001, og hvað sem okkur kann að finnast um slíka viðhöfn, þá eru þær hluti af starfsskilyrðum hafna í heiminum í dag, íslenskra líka.
Björg Ágústsdóttir, hafnarstjóri