Í síðustu viku var hin árlega fantasíukeppni haldin í Eden. Þemað í ár var Þjóðsögur Íslendinga. Einungis þrjú lið skráðu sig til keppni en oftar hafa þau nú verið fleiri. Því voru veitt verðlaun fyrir öll sætin og fengum við Guðrúnu Ósk, sem dæmdi förðun, Guðbjörgu Friðfinns sem dæmdi fatahönnun og Eygló sem dæmdi hárgreiðslu, til að koma til okkar og hjálpa okkur með þessa frábæru keppni unglinganna.

 

Þetta var að sjálfsögðu stórskemmtilegt en erfitt verk fyrir dæmendur að ákveða hver myndi nú hreppa 1. sætið. En það varð að velja úr og urðu Særós Ósk Sævaldsdóttir, Ríkey Konráðsdóttir, Kristbjörg Maggý Fjeldsted og Sigurbjörg Sandra Pétursdóttir, sem var módelið þeirra, í fyrsta sæti, en þær voru með hafmeyju. Fengu þær pizzuveislu frá Kaffi 59 í verðlaun og glaðning frá Lyfju Grundarfirði. Toppurinn á tilverunni var svo ferð á Stíl, sem er á vegum Samfés, þar sem þær kepptu ásamt 60 öðrum félagsmiðstöðum víðsvegar að af landinu. Þær stóðu sig frábærlega í keppninni og bættu sig mikið frá því í keppninni hér. Að lokum má nefna það að það er svo gaman að sjá hvað unglingarnir okkar hér í Grundarfirði hafa ótrúlegar hugmyndir og leyfa ímyndunaraflinu virkilega að njóta sín.