Tómas Freyr Kristjánsson fylgdi forsetanum eftir og tók þessar skemmtilegu myndir. Viðbót: Bætt var við myndum Gunnars Kristjánssonar úr Sögumiðstöðinni.

 

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson hóf daginn með morgunverðarfundi með bæjarfulltrúum og embættismönnum Grundarfjarðarbæjar á Hótel Framnesi. Að þessum fundi loknum var haldið í Leikskólann Sólvelli. Nemendur og starfsfólk leikskólans tóku vel á móti forsetanum og var honum m.a. færð teikning að gjöf. 

Næst var haldið í grunnskólann. Þar kynnti Ólafur  sér aðstöðuna og flutti ávarp á sal. Að loknu ávarpi bauð hann upp á fyrirspurnir frá nemendum og ekki stóð á ungum Grundfirðingum að nýta sér það. Næsti viðkomustaður var í útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækinu Guðmundi Runólfssyni hf.  Kaffitími stóð yfir og spjallaði forsetinn við starfsfólk og stjórnendur fyrirtækisins. Haldið var í Fjölbrautaskóla Snæfellinga þar sem forsetinn kynnti sér starfsemi skólans, flutti ávarp og ræddi góða stund við nemendur og starfsfólk. Næst fór forsetinn á dvalarheimilið Fellaskjól, en svo skemmtilega vildi til að þar var Elna Bárðarson var að halda uppá 87 ára afmæli sitt. Sverrir Karlson, áhugaljósmyndari, var á staðnum og færði hann forsetanum ljósmynd að gjöf.  Ólafur lauk heimsókn sinni til Grundarfjarðar með því að heimsækja Eyrbyggju - Sögumiðstöð. Forsetinn var sérstaklega hrifinn af Barbie sýningunni og ljósmyndasafni Bærings Cecilssonar sem Ingi Hans Jónsson, forstöðumaður lýsti. Þar með lauk velheppnaðri heimsókn forsetans í Grundarfjörð og hélt hann til Snæfellsbæjar um hádegisbilið.