- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Kæru íbúar og gestir á þjóðhátíðardeginum 2020!
17. júní hátíðarhöldin verða með örlítið breyttu sniði þetta árið. Hér koma sérstakar leiðbeiningar og hvatning til að mæta í skrúðgönguna!
Í ár verður skrúðgangan óvenjuleg, en sérlega glæsileg, ef okkur tekst vel til. Það er í höndum okkar allra, íbúa og gesta, að láta þetta takast! Við ætlum að halda fyrstu „línulegu skrúðgönguna“ á Íslandi.
Söngsveitin MÆK verður í fararbroddi og verður söngdívunum ekið eftir Grundargötunni, á vagni, frá vestri til austurs.
Við viljum biðja alla Grundfirðinga og gesti að safnast saman kl. 14 hvar sem er á gangstéttunum báðum megin við Grundargötuna (einkum á svæðinu milli Kaffi 59 og gamla Arionbanka) og mynda þar „mannlega keðju“ þar sem 2 löglegir metrar aðskilja hvern og einn.
Við viljum sjá hversu langa keðju við getum myndað og hversu langt út úr bænum við náum. Stúlknabandið Mæk mun keyra eftir Grundargötunni, syngjandi og halda uppi góðri stemningu. Við hvetjum íbúa til að streyma á Grundargötuna og "standa" skrúðgönguvakt, þegar söngvagninn fer framhjá. Öllum er síðan velkomið að fylgja vagninum eftir götunni, eftir að hann ekur fram hjá.
Þessi skrúðganga verður mynduð úr lofti og af landi af Tomma, Marinó og Brynjari. Við biðjum þátttakendur að mæta skrautlega klædda með íslenska fánann, blöðrur og veifur. Litríkar regnhlífar væru líka fyrirtak, sem og góða skapið auðvitað. Myndefnið verður notað í myndband og í kynningarefni fyrir bæinn okkar og verður góð heimild þegar fram í sækir.
Sjáumst í skrúðgöngu - í þjóðhátíðarskapi!