- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Skessuhorn 19. febrúar 2010:
Félagsheimilið Klif í Ólafsvík var fullt út úr dyrum í gærkveldi, þar sem haldinn var baráttufundur um sjávarútvegsmál. Um 300 manns mættu á fundinn sem öll sveitarfélög og hagsmunaaðilar atvinnulífsins á Snæfellsnesi stóðu að þá voru um 200 sem fylgdust með fundinum í beinni útsendingu í gegnum vef Snæfellsbæjar. Það var Fiskmarkaður Íslands í Snæfellsbæ sem hafði forgöngu um fundinn og þegar fólk mætti í Klif beið þess hlaðið veisluborð sem kvenfélagskonur í Ólafsvík höfðu útbúið í boði Fiskmarkaðarins. Hafði það áreiðanlega góð áhrif á fundarfólk að geta gengið að pönsum og kaffi milli framsöguerinda. Fyrirkomulag fundarins var þannig að sex ræðumenn töluðu um málefni greinarinnar og komu þeir hver úr sínum geira sjávarútvegsins. Varpaði það ljósi frá öllum hliðum á þessi brýnu hagsmunamál íbúa við sjávarsíðuna.
Yfirskrift fundarins var „óvissa í sjávarútvegi“ og í máli flestra ræðumanna kom fram hörð gagnrýni á það óöryggi sem sjávarútvegurinn býr við, bæði hvað varðar skerðingu á veiðum einstakra fiskitegunda og ógnanir á öðrum sviðum, svo sem boðuð fyrningarleið stjórnvalda, sem mætti greinilega mikilli andstöðu og höfnun meðal ræðu- og fundarmanna. Þá voru aðferðir Hafrannsóknarstofnunar við stofnmælingar gagnrýndar af nokkrum ræðumanna. Nútímarannsóknir þyrftu að taka mið af fleiri þáttum en fiskifræðingar hefðu stuðst við til þessa.
Ítarlega verður fjallað um framsöguræðurnar í Skessuhorni í næstu viku.