- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Íbúar á Snæfellsnesi* og Vestmannaeyjum reyndust hamingjusamastir og marktækt hamingjusamari en íbúar á öðrum svæðum landsins í merkilegri könnun sem nýverið fór fram á vegum Byggðastofnunar og landshlutasamtaka sveitarfélaga. Þar svöruðu yfir 10.200 manns í öllum landshlutum. Könnuð var afstaða íbúa til búsetuskilyrða, aðstæðna á vinnumarkaði og til lífsgæða eins og náttúru, friðsældar, öryggis. Auk þess var lífsafstaða eins og hamingja mæld, afstaða til búsetusveitarfélags og spurt hvort íbúar væru líklegir til að flytja af svæðinu á næstunni.
* Snæfellsnes er fallegt nes milli Faxaflóa og Breiðafjarðar og þar teljum við fimm sveitarfélög; Grundarfjarðarbæ, Eyja- og Miklaholtshrepp, Helgafellssveit, Stykkishólmsbæ og Snæfellsbæ.
Skoðanakönnunin var gerð í september og október 2020 á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku. Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri annaðist gerð úrtaks. Vífill Karlsson, hagfræðingur hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, hafði yfirumsjón með skipulagi og framkvæmd. Niðurstöðurnar byggja á svörum frá yfir tíu þúsund þátttakendum og er þetta í fyrsta sinn sem svo víðtæk könnun á búsetuskilyrðum, hamingju og viðhorfi til sveitarfélags nær til allra svæða landsins.
Þátttakendur voru einnig beðnir að meta hvaða búsetuskilyrði skipti þá mestu máli og út frá því komu náttúra og friðsæld hæst út á Snæfellsnesi. Íbúar á Snæfellsnesi gáfu ásýnd (ásýnd bæja og sveita ásamt almennri umgengni) hæstu einkunn allra svæða. Önnur atriði sem skoruðu hátt voru loftgæði, umhverfismál, sorpmál og umferðaröryggi. Hins vegar komu vöruverð, vöruúrval og heilsugæsla verst út. Í heildarsamanburði allra 24 sveitarfélaga/svæða lendir Snæfellsnes í 5. sæti.
Stærsti hópur þátttakenda mat hamingju sína 8 á skalanum 1-10. Lítill munur mældist á hamingju íbúa eftir landsvæðum en íbúar í Vestmannaeyjum og Snæfellsnesi reyndust marktækt hamingjusamari en á öðrum svæðum landsins og hamingjusamastir allra. Íbúar höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar voru hins vegar marktækt óhamingjusamari en aðrir í könnuninni.
Niðurstöður könnunarinnar voru einnig bornar saman við könnun sem gerð var 2016/2017, en sú könnun var hins vegar ekki eins víðtæk og þessi.
Hér má skoða könnunina nánar á vef SSV og samantekt niðurstaðna í heild má lesa hér. Ítarlega frétt Skessuhorns má lesa hér.