- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í dag á Grunnskóli Grundarfjarðar 60 ára afmæli, en þann 6. janúar árið 1962 var nýtt húsnæði Barnaskóla Grafarness "á holtinu" vígt. Kennsla hófst þar hinn 8. janúar 1962.
Aðstæður bjóða ekki uppá mannfögnuði á afmælisdeginum, en í tilefni afmælisins mun öll þessi önn (sem vonandi verður fljótlega laus við takmarkanir) taka mið af afmælinu í þemastarfi skólans. Þegar færi gefst á næstu mánuðum verður íbúum og öðrum velunnurum skólans boðið til samkomu til að fagna afmælinu.
"Skólahúsnæðið í Samkomuhúsinu sem byrjað var að kenna í haustið 1944 varð fljótlega of lítið vegna örrar fólksfjölgunar í Grafarnesi. Í gegnum tíðina hafa það verið örlög skólabygginga á staðnum að vera þegar orðnar of litlar þegar þær eru teknar í notkun. Smíði nýs skólahúsnæðis var reifuð við fræðslumálayfirvöld árið 1956 enda orðið aðkallandi að hús sem eingöngu væri notað sem skóli risi í hinu ört vaxandi byggðarlagi. Í dagbók Elimars Tómassonar sem var fyrsti skólastjórinn í þéttbýlinu segir hann svo frá laugardaginn 3. nóvember 1956: “Þurrt og kaldi á sunnan fram til kl. 2, rigning úr því. Í dag var ekki kennt. Helgi Elíasson fræðslumálastjóri kom hér í morgun um kl. 9 ½. Með honum var arkitekt. Við fórum að skoða fyrirhugaðan skólastað og stað fyrir kirkju. Skólinn á að vera á hæðinni hér beint fyrir ofan Sjónarhól. Þeir komu svo til mín og drukku kaffi”.
Haustið 1959 var síðan hafin smíði nýs barnaskóla þar sem honum hafði verið valinn staður á holtinu efst við Borgarbraut. Fullbyggt var hið nýja skólahúsnæði, ofan við Sjónarhól, vígt formlega á þrettándanum hinn 6. janúar 1962. Arkitekt var Guðmundur Guðjónsson. Yfirsmiður skólabyggingar var Björn Guðmundsson. Sigurberg Árnason trésmíðameistari og síðar byggingafulltrúi í Grundarfirði var nemi á fyrsta ári í trésmíðum þegar skólinn var í byggingu og man eftir því að hann vann við að smíða innréttingarnar í skólann á verkstæði Björns sem staðsett var í Hlöðunni hennar Kristínar frá Búðum en hún mun hafa verið vestan við vélsmiðju Bærings eða Smiðjunnar sem svo er enn kölluð og hýsir í dag (2002) bókasafn, fjarnám og Slökkvistöð ásamt áhaldahúsi sveitarfélagsins.
Vígsla hins nýja skóla
Vígsluatöfnin stóð í 2 klst. og fór fram í andyri skólans. Söngvar voru sungnir við undirleik frú Áslaugar Sigurbjörnsdóttur sem spilaði á nýtt píanó sem keypt hafði verið fyrir vígsluna. Gaf kvenfélagið Gleym-mér- ei 5000 krónur í hljóðfærasjóð við vígsluna. Fluttar voru ræður og ávörp en að lokum afhenti oddvitinn Halldór Finnsson, Svavari Jónssyni skólastjóra, lykil að húsnæðinu. Svavar hafði verið ráðinn skólastjóri haustið 1961 eftir að Elimar Tómasson lét af störfum fyrir aldurs sakir. Elimar var við vígsluna og flutti þar ræðu. Kennsla hófst síðan í hinu nýja húsnæði Barnaskóla Grafarness hinn 8. janúar."
Húsnæði grunnskólans hefur tvívegis verið stækkað síðan 1962, þ.e. 1975-1978 og 1998-2000, auk þess sem sundlaug var tekin í notkun haustið 1976 og voru þá 190 í börn í skólasundi eins og segir í gamalli frétt í Morgunblaðinu. Laugin var svo endurbætt 2009. Íþróttahús var síðan vígt og tekið í notkun haustið 1989.
Úr ljósmyndasafni Bærings Cecilssonar hafa nú verið valdar nokkrar ljósmyndir af skólabyggingu og skólastarfi á holtinu, sem skoða má hér fyrir neðan.