- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í gær, 3. júní 2020, var Grunnskóla Grundarfjarðar slitið og nemendur héldu út í sumarið.
Norræna skólahlaupið fór fram að morgni síðasta skóladagsins og var þátttaka nemenda góð. Hægt var að hlaupa 5 og 10 km, auk þess sem yngstu börnin fóru 2,5 km. Hver og einn fór á sínum hraða. Sjá má frétt og myndband frá upphafi hlaupsins, hér á vef grunnskólans.
Í frímínútum færðu nemendur 10. bekkjar starfsfólki skólans forláta matarkörfu að gjöf, fulla af ýmsu góðgæti, með þakklætiskveðjum fyrir síðustu 10 ár, eins og lesa má um hér á Facebook-síðu grunnskólans.
Ekki var efnt til hefðbundinnar athafnar með skólaslitum í íþróttahúsi eins og verið hefur undanfarin ár. Ráðstafanir vegna sóttvarna kalla á annars konar skólalok. Árleg kaffisala Foreldrafélagsins féll sömuleiðis niður, en hún hefur verið aðalfjáröflun félagsins. Í staðinn má styrkja félagið, sjá nánar hér.
Skólaslit unglingastigs, þ.e. 8. - 10. bekkjar, fóru hins vegar fram í Grundarfjarðarkirkju síðdegis og var hápunkturinn útskrift 10. bekkinga. Athöfnin var opin fjölskyldum nemenda og öðrum gestum.
Í ávarpi Sigurðar Gísla Guðjónssonar, skólastjóra, rifjaði hann upp skólastarf liðins vetrar. Þrátt fyrir óvænt uppbrot vegna sóttvarna nú á vorönn, gekk skólastarfið vel. Skólastjóri þakkaði nemendum og starfsfólki fyrir viðburðaríkan en ánægjulegan vetur.
Nemendur voru rétt tæplega 100 á vorönn. Átta útskrifast úr 10. bekk nú, en 19 nýir nemendur koma í 1. bekk að hausti.
Nemendur tíunda bekkjar rifjuðu upp skólagöngu sína í skemmtilegri yfirferð og afhentu skólanum peningafjárhæð að gjöf. Var það afgangur úr ferðasjóði þeirra síðan úr 9. bekk og fylgdi sú ósk að peningunum yrði varið í að kaupa sófa fyrir unglingastigið. Að því búnu voru þau útskrifuð úr skólanum. Skólastjóri ávarpaði hvern og einn og hvatti til dáða. Lilja Magnúsdóttir sem stýrir skólabókasafninu afhenti 10. bekkingum viðurkenningu fyrir afköst í yndislestri, en þau lásu mest allra bekkja skólans. Rósa Guðmundsdóttir formaður bæjarráðs færði nemendunum kveðju frá bæjarstjórn og afhenti hverju og einu þeirra rós, í tilefni dagsins og þakkaði í leiðinni starfsfólki skólans fyrir gott starf á liðnum vetri.
Útskriftarnemendum eru færðar innilegar hamingjuóskir með þennan áfanga og megi þeim farnast vel í nýjum verkefnum.