- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Síðastliðinn föstudag hófst bikarkeppni KSÍ, Visabikarinn, og í Grundarfirði áttust við Ungmennafélag Grundarfjarðar og Höfrungur frá Þingeyri. Grundarfjörður hefur ekki sent inn lið í meistaraflokki karla í stóru mótin á vegum KSÍ síðan 1987 en þessi hópur samanstendur af hópi drengja sem hafa tekið þátt í utandeildinni í knattspyrnu síðustu ár. Nokkrir þeirra hafa ákveðin tengsl við Grundarfjörð og fengu því þessa hugdettu að skrá sig í bikarkeppnina og fengu til þess leyfi hjá forsvarsmönnum Ungmennafélagsins.
Byrjunarlið Grundarfjarðar var skipað eftirfarandi leikmönnum: Davíð Hansson Wíum stóð í markinu en um vörnina sáu Jón Frímann Eiríksson, Kristinn Óli Hallson, Stefán Friðleifsson og Steingrímur G. Árnason. Á miðjunni léku Haukur Tómasson, Atli Kristinsson, Daníel Freyr Gunnarsson og Hafliði G. Guðlaugsson. Frammi léku svo Baldur Már Vilhjálmsson og Valur Tómasson. Varamenn voru Tómas Freyr Kristjánsson, Aðalsteinn Jósepsson, Davíð Stefánsson, Olgeir Pétursson og Bjartmar Pálmason. Liðstjóri og sjúkraþjálfari voru síðan Auðunn G. Eiríksson og Haraldur Hallsteinsson.
Kalt var í veðri og talsvert rok sem stóð á annað markið og bar leikurinn þess merki að aðstæðurnar voru ekki alveg eins og flestir vildu hafa þær. Samt sem áður reyndu bæði lið að spila góða knattspyrnu og eitthvað af færum leit dagsins ljós, þó verður að segjast að Grundfirðingar fengu ívið fleiri hættulegri færi sem illa gekk að nýta. Markalaust í hálfleik en heimamenn komust yfir á 72. mínútu með marki frá Atla Kristinssyni. Allt stemmdi í að þau yrðu úrslitin en tæplega 10 mínútum fyrir leikslok þá jöfnuðu Höfrungsmenn en fengu til þess aðstoð varnarmanna Grundfirðinga. Lokastaðan varð 1:1 og því þurfti að framlengja. Hvorugu liði tókst að finna netmöskvana í þessum 30 mínútna viðbótartíma og því varð að grípa til vítaspyrnukeppni til að útkljá þessa rimmu. Fór hún þannig að Grundfirðingar skoruðu úr öllum sínum fimm spyrnum á meðan einn leikmaður Höfrungs setti sína spyrnu hátt yfir markið. 6:5 heimasigur því staðreynd og mikil gleði braust út á vellinum meðal heimamanna. Ekki annað hægt en að taka ofan af fyrir andstæðingunum sem lögðu á sig mikið ferðalag til að koma í leikinn, lögðu af stað um hádegisbil á leikdegi og voru komnir heim aftur á Þingeyri um kl 02:30 um nóttina, um 720 km ferðalag.
Niðurstaðan úr þessu varð að í næsta leik mæta Grundfirðingar nærsveitungum sínum í Snæfelli frá Stykkishólmi. Sá leikur mun fara fram á Grundarfjarðarvelli þann 17. maí kl. 14:00. Ljóst er að sigurliðið úr þeim leik mun fá það geysispennandi verkefni að mæta sterku 2. deildarliði Aftureldingar úr Mosfellsbæ og verður sá leikur spilaður í Mosfellsbæ. Það er því mikið í húfi og hvetjum við því alla að mæta.
Davíð Hansson Wíum og Tómas Freyr Kristjánsson