Mynd: Mats Wibe Lund

 

Grundarfjarðarhöfn mun á næstu dögum taka þátt í kaupstefnu fyrir rekstraraðila skemmtiferðaskipa, en hún er haldin í Miami í Bandaríkjunum 13. til 16. mars n.k.

 

Grundarfjarðarhöfn hefur á undanförnum árum gert átak í að fjölga komum skemmtiferðaskipa og á síðustu 4 árum höfum við tekið á móti 35 skemmtiferðaskipum.  

Þetta er í fyrsta sinn sem höfnin tekur þátt í Miami-sýningunni, sem er ein þekktasta kaupstefnan í ,,skemmtiferðaskipabransanum”, en nokkrar íslenskar hafnir og fyrirtæki hafa kynnt sig með þessum hætti á liðnum árum.

 

Hafnirnar sem fara í ár eru, auk Grundarfjarðarhafnar, hafnirnar í Reykjavík og á Akureyri, Ísafirði, Húsavík og Seyðisfirði. Allir íslensku aðilarnir eru saman á bás, auk sýnenda frá Grænlandi og Færeyjum. Það er Shelagh Smith sem fer fyrir höfnina á sýninguna, en hún ásamt Johönnu stöllu sinni í Detours ehf. hafa skipulagt móttöku farþega af skemmtiferðaskipum fyrir hönd hafnarinnar undanfarin ár.

 

Um 950 sýnendur eru á þessari risasýningu, frá meira en 100 löndum, en sýningin er nú haldin í 22. sinn.

 

Það er eftir töluverðu að slægjast, því á árinu 2005 var áætlað að um 14 milljónir manna í heiminum hafi ferðast með skemmtiferðaskipum. Fjöldi gesta hafði þá aukist um 140% á 10 árum og ekki séð fyrir endann á vexti í greininni. Áætlað er að um 34 millj. manna muni nota þennan ferðamáta á árinu 2015. Í takt við þetta eru skemmtiferðaskipin alltaf að stækka og þau skip sem nú eru í byggingu eru flest hver um og jafnvel vel yfir 100.000 tonn. Stærsta skip sem komið hefur til Grundarfjarðar var um 44.000 tonn og lá við ankeri úti á firði.

Grundarfjarðarhöfn getur tekið skip upp að stóru bryggju sem eru allt að 160-170 metrum á lengd og rista um 6 metra . 

 

Sjá vefsíðu skemmtiferðakaupstefnunnar hér.