- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar ákvað á fundi sínum þann 20. janúar síðastliðinn að Grundarfjarðarbær verði „Barnvænt sveitarfélag“. Þetta þýðir að sjónarmið barna og hagsmunir verða á markvissan hátt höfð til hliðsjónar í starfi og ákvörðunum sveitarfélagsins.
Barnvæn sveitarfélög er verkefni sem styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu sína og starfsemi. Sjá nánar hér. Verkefnið byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative (CFCI), sem hefur verið innleitt í þúsundum sveitarfélaga út um allan heim frá árinu 1996 og vinnu umboðsmanna barna í Noregi og Svíþjóð og UNICEF í Finnlandi.
UNICEF er skammstöfun á Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Það er UNICEF á Íslandi sem hefur umsjón með verkefninu og styður við starf sveitarfélaganna. Verkefnið er ennfremur stutt af félagsmálaráðuneytinu.
Að innleiða Barnasáttmálann þýðir að sveitarfélag samþykkir að nota sáttmálann sem viðmið í sínu starfi og að forsendur sáttmálans gangi sem rauður þráður gegnum starfsemi þess. Nefndir bæjarins og starfsmenn setja því upp nokkurs konar „barnaréttindagleraugu“ og endurskoða verklag sitt og ákvarðanir með hliðsjón af Barnasáttmálanum. Sáttmálinn er þannig nýttur sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu með tilliti til barna.
Sveitarfélög sem taka þátt og innleiða Barnasáttmálann að fullu, hljóta í lok innleiðingarferlis viðurkenningu sem Barnvæn sveitarfélög. Akureyrarbær var fyrsta sveitarfélagið til að ljúka innleiðingu og hljóta þá viðurkenningu.
Innleiðingarferlið tekur tvö til þrjú ár og skiptist í átta skref sem sveitarfélag stígur með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna. Að tveimur árum liðnum getur sveitarfélagið sótt um viðurkenningu frá UNICEF á Íslandi og gildir hún í þrjú ár. Þá eru sett ný markmið og óskað eftir áframhaldandi viðurkenningu UNICEF.
Grundarfjarðarbær mun á næstu vikum hefja þessa vegferð til innleiðingar og verður Ólafur Ólafsson, nýráðinn íþrótta- og tómstundafulltrúi Grundarfjarðarbæjar, tengiliður vegna verkefnisins. Verkefnið krefst aðkomu allra nefnda bæjarins og fleiri samstarfsaðila, en ungmennaráð mun þó hafa sérstakt hlutverk og aukið vægi.
Nú er einmitt leitað að nýjum fulltrúum til viðbótar í ungmennaráð.