- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Föstudaginn 11. mars 2022 bættist Grundarfjarðarbær í hóp þeirra sveitarfélaga sem vinna að því að verða barnvænt sveitarfélag. Á fundi sínum í janúar sl. ákvað bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar að innleiða verkefnið í starfsemi bæjarins. Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri og Ólafur Ólafsson íþrótta- og tómstundafulltrúi tóku þátt í kynningarfundi sl. föstudag fyrir barnvæn sveitarfélög á vegum UNICEF á Íslandi, sem hafa umsjón með verkefninu á landsvísu. Alls eru nú tuttugu sveitarfélög sem hafa hlotið staðfestingu sem Barnvænt sveitarfélög eða vinna að því.
Barnvæn sveitarfélög er verkefni sem styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi. Verkefnið byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative (CFCI), sem hefur verið innleitt í þúsundum sveitarfélaga út um allan heim frá árinu 1996. Verkefnið byggir jafnframt á efni frá umboðsmönnum barna í Noregi og Svíþjóð og UNICEF í Finnlandi. UNICEF á Íslandi hefur umsjón með verkefninu en verkefnið er stutt af mennta- og barnamálaráðuneyti.
Sveitarfélög sem taka þátt og innleiða Barnasáttmálann hljóta viðurkenningu sem Barnvæn sveitarfélög þegar innleiðingu er lokið. Innleiðingarferlið tekur að minnsta kosti tvö ár og skiptist í 8 skref sem sveitarfélag stígur með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna. Sveitarfélögin munu þannig innleiða Barnasáttmálann með markvissum hætti í alla sína stjórnsýslu og starfsemi með stuðningi frá UNICEF á Íslandi.
Bæjarstjóri skrifaði undir samning við mennta- og barnamálaráðherra og framkvæmdastjóra UNICEF þann 11. mars 2022 um að hefja innleiðingu og stefna þannig að því að fá staðfestingu sem Barnvænt sveitarfélag. Umsjónarmaður verkefnisins hjá Grundarfjarðarbæ verður Ólafur Ólafsson íþrótta- og tómstundafulltrúi og ungmennaráð verður virkjað í þátttökunni.