- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Grundarfjarðarbær hefur hlotið 334 milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu til blágrænna fráveitulausna.
Verkefni bæjarins er hluti af samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar og 22 annarra stofnana og sveitarfélaga undir yfirskriftinni LIFE ICEWATER. Samstarfsaðilarnir hljóta alls 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fjölbreyttum verkefnum næstu sex árin til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.
Styrkurinn sem Grundarfjarðarbær hlýtur er tæpar 2,3 milljónir evra, sem samsvarar um 334 millj. ísl. kr. á gengi í dag. Styrkurinn er ætlaður til verklegra framkvæmda innanbæjar, auk undirbúnings og fræðslu, með framkvæmdatíma árin 2025-2030.
Í fréttatilkynningu Umhverfisstofnunar kemur m.a. fram að verkefninu s´é ætlað að:
Þar segir einnig að styrkurinn fyrir LIFE ICEWATER sé einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið. Umfang verkefnanna sem samstarfshópurinn hefur sett saman er samtals um 5,8 milljarðar króna. LIFE áætlun Evrópusambandsins styrkir verkefnið um 60% af heildarkostnaði eða samtals um 3,5 milljarða sem dreifast á samstarfshópinn og verða verkefnin unnin á árunum 2025-2030.
Verkefninu er skipt upp í 7 hluta. Sjá yfirlit aðgerða undir hverjum verkhluta:
Samstarfsaðilarnir
Auk Umhverfisstofnunar eru 22 samstarfsaðilar í verkefninu: Eimur, Gefn, Grundarfjarðarbær, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Hveragerðisbær, Isavia, Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun, Náttúruminjasafn Íslands, Orka náttúrunnar, Orkustofnun, Orkuveita Húsavíkur, Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, Ríkisútvarpið, Samband íslenskra sveitarfélaga, umhverfis,- orku og loftslagsráðuneyti, Veðurstofa Íslands og Veitur, ásamt þremur óbeinum þátttakendum: Sveitarfélagið Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.
Áskorun og stefna Grundarfjarðarbæjar
Um alllangt skeið hefur verið brýnt að endurbæta rúmlega hálfrar aldar gamalt fráveitukerfi í þéttbýli Grundarfjarðar sem annar ekki því vatnsmagni sem um það streymir. Meginhluti fráveitukerfisins er blandað (einfalt) kerfi þar sem ofanvatni og skólpi er blandað saman. Úrkomutölur gefa til kynna að gríðarlegt vatnsmagn rati sína leið í gegnum fráveitukerfið. Ekki er æskilegt að allt þetta regnvatn fari í fráveitukerfið, sem hefur það meginhlutverk að taka við skólpi frá íbúum. Mikið regn, snjór og asahláka veldur miklu álagi á kerfið og við erfiðustu aðstæður getur það valdið flóðaástandi í bænum.
Nútímalausnir kalla á aðra og umhverfisvænni nálgun en einfalt kerfi býður uppá og í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 var því mörkuð stefna um að nota blágrænar ofanvatnslausnir (fráveitulausnir)* til að minnka vatnsmagn í fráveitukerfinu. Grundarfjarðarbær er fyrsta sveitarfélagið á Íslandi sem setur skýra stefnu um innleiðingu blágrænna fráveitulausna við endurnýjun veitukerfis síns.
Grundarfjarðarbær hefur unnið að því frá 2020 að innleiða þessa stefnu í áföngum. Gamla, einfalda fráveitukerfið er endurnýjað smátt og smátt, samhliða því að bærinn er í öðrum framkvæmdum s.s. í götum, gangstéttum og opnum svæðum. Sjá dæmi. Í staðinn fyrir að stækka og leggja fráveitulagnir neðanjarðar er búinn til viðtaki eða farvegur á yfirborðinu og regnvatni beint þangað, t.d. í sérstök regnbeð, inná græn svæði sem geta tekið við meira vatni o.fl. Blágrænir innviðir auka gróður í umhverfinu og bæta um leið yfirbragð byggðarinnar, gera hana meira aðlaðandi og heilsusamlegri. Með þessu er verið að minnka það magn af hreinu vatni sem rennur óheft í skólpkerfið, bæta hreinsun skólps og draga úr hættu á yfirflæði. Auk þess er verið að vinna í haginn til framtíðar, þegar að því kemur að skólpið verði hreinsað áður en það rennur til sjávar. Þá mun skipta miklu máli að magnið í fráveitukerfinu sé viðráðanlegt og framkvæmd við hreinsistöð hagkvæmari.
Styrkverkefni Grundarfjarðarbæjar 2025-2030
Styrkveitingu til Grundarfjarðarbæjar er ætlað að mæta kostnaði við verklegar framkvæmdir sem tengjast fráveitu, með innleiðingu á blágrænum fráveitulausnum í götum, stígum, á opnum svæðum og almenningsrýmum, og með plöntun og gróðursetningu í blágræn beð, auk undirbúnings. Framkvæmdirnar verða einkum í Hrannarstíg, Borgarbraut og Sæbóli. Styrkur er einnig fyrir uppbyggingu útivistarsvæða í hluta af Paimpolgarði og Torfabót. Áform eru um að Paimpolgarður þjóni enn frekar en verið hefur lykilhlutverki sem "regngarður" og viðtaki ofanvatns og að Torfabót verði einnig lykilviðtaki ofanvatns í hverfinu. Undirbúningur, fræðsla, uppsetning skilta o.fl. er sömuleiðis hluti heildarverkefnis.
Styrkurinn veitir Grundarfjarðarbæ dýrmætt tækifæri til að sinna umhverfisframkvæmdum og uppbyggingu innviða af enn meiri krafti en áður.
* Blátt táknar vatn og grænt táknar gróður. Blágræn svæði eru gróðursvæði sem eiga að taka við regnvatni, betur en önnur græn svæði.