- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Tilkynnt hefur verið um úthlutun styrkja úr Orkusjóði til nýrra verkefna við leit og nýtingu jarðhita 2023-2025 til almennrar húshitunar á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar.
Eins og komið hefur fram í fréttum á vef bæjarins er eitt stærsta verkefni Grundarfjarðarbæjar í ár orkuskipti skóla- og íþróttamannvirkja. Skipt verður út olíukyndingu mannvirkjanna og sett upp varmadælukynding í staðinn. Á árinu 2022 voru notaðir um 130.000 lítrar af olíu til kyndingar mannvirkjanna.
Framkvæmdir við orkuskipti í skólahúsnæði, sundlaug og íþróttamannvirkjum standa nú yfir. Í sumar sem leið voru boraðar tíu varmasöfnunarholur og þessa dagana eru að fara af stað framkvæmdir við frágang og tengingu lagna úr holunum og inn í hús. Áætlað er að framkvæmdum verði lokið á næsta ári, 2024. Mikilvægt er að byggja á þeirri reynslu og taka enn frekari skref á sömu braut.
Styrkurinn sem sótt var um í sumar og tilkynnt var um nú í morgun úr nýju jarðhitaleitarátaki ríkisins gerir bænum kleift að þróa orkuskiptin nánar og hugsa enn frekar til næstu skrefa í þessum efnum. Grundarfjörður er sem kunnugt er "kalt svæði" og því mikilvægt að þróa lausnir sem miða að því að hagnýta og búa til nýja orku til að lækka kyndingarkostnað.