Þessa dagana stendur Grundarfjarðarbær fyrir átaki í gróðursetningu trjáplantna. Plöntur verða settar niður á skólalóð,  í þríhyrningi, við hinar nýju íbúðir eldri borgara á Hrannarstíg og í jarðvegsmön á iðnaðarsvæði. Verkefnið er í umsjá Þórðar Runólfssonar frá Garðyrkjustöðinni Syðra - Lágafelli í Miklaholtshreppi. Plönturnar eru í heildina um 600 talsins og er áætlað að búið verði að planta þeim um hádegisbil á morgun.

Í undirbúningi er einnig að gróðursetja aspir á völdum svæðum í bænum í ágúst nk.

Plöntur á skólalóð

Þórður garðyrkjufræðingur með starfsstúlkum sínum

þeim Dagnýju og Sólveigu

 

Þess má að auki geta að Grundarfjarðarbær og Skógræktarfélag Eyrarsveitar vinna nú að að undirbúningi mikils gróðursetningarverkefnis sem felst í ræktun skjólbelta í stórum stíl ofan bæjarins. Á dögunum kom framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga til ráðgjafar og hitti fulltrúa bæjarins og skógræktarfélagsins. Skjólbelti ættu, þegar fram líða stundir, að skýla byggðinni og minnka vindálag í þéttbýli Grundarfjarðar.