Greiðsluhlið við ferðamannainngang í Samkomuhúsi

Sett hefur verið upp gjaldhlið við salernin í Samkomuhúsi Grundarfjarðar að Sólvöllum 3. Síðan 2019 hafa salernin í samkomuhúsinu verið nýtt sem almenningssalerni og ferðamönnum hefur því í sex ár staðið til boða að nýta þau sem slík, án þess að gjald hafi verið tekið fyrir. Þjónustan hefur verið í boði allan ársins hring að mestu, nema einkasamkvæmi séu í húsinu. Ferðamenn verða framvegis rukkaðir um kr. 200 fyrir að nota salernin. Hægt er að greiða bæði með korti og mynt.

Gjaldhliðið er einungis ætlað ferðamönnum sem nota þennan inngang en hliðið verður að sjálfsögðu ekki í gangi þegar húsið er í útleigu eða annarri notkun, enda eru salernin lokuð þegar einkasamkvæmi eru í húsinu. Gjaldhliðið má ennfremur taka alfarið niður þegar stórar samkomur eða skemmtanir fara fram.

Þar sem skortur hefur verið á almenningssalernum fyrir ferðamenn á svæðinu, með góðu aðgengi og löngum opnunartíma, var sú ákvörðun tekin 2019 að hafa salernin í samkomuhúsinu opin fyrir ferðamenn. Bærinn hefur með tilheyrandi kostnaði séð fyrir þessari aðstöðu, sem nýst hefur ferðafólki og ferðaþjónustu á svæðinu.

Ákvörðun um uppsetningu gjaldhliðs var tekin við samþykkt á fjárhagsáætlun ársins 2024. Að undangenginni verðkönnun hjá nokkrum söluaðilum tók bæjarráð tilboði frá Hagvís á fundi sínum þann 22. mars sl. Bæjarráð taldi tímabært að viðhafa gjaldtöku fyrir afnot af salernunum meðan þau eru nýtt í þessu skyni. Ljóst sé þó að nýting salerna samkomuhússins með þessum hætti sé ekki framtíðarlausn.

Hafi ferðaþjónustuaðilar áhuga á því fyrir sína viðskiptavini, er einnig mögulegt að kaupa fyrirframgreidda aðgangsmiða með magnafslætti.

 

Allar frekari upplýsingar veitir Kristín, sem er umsjónarkona samkomuhússins, á kristin@gfb.is eða í síma 831-7242. Einnig má finna á vef bæjarins nánari upplýsingar um salernisaðstöðu í Grundarfirði.

 

Upplýsingar um almenningssalerni

Public restroom information