Það hefur víða komið fram hvað Grundfirðingar eru bjartsýnir, jákvæðir og standa vel saman.  Áhugasamir einstaklingar og félög í Grundarfirði hafa ákveðið að nota þessa krafta til að safna sem nemur kr. 500,- á hvern Grundfirðing til að gefa í söfnunina „Neyðarhjálp úr norðri“.

 

Í þetta fer söfnunarféð:

 

• Treysta framtíð barna sem misst hafa foreldra sína.

• Hjálpa fjölskyldum sem misstu allt sitt til að koma undir sig fótunum á ný.

• Veita læknisaðstoð og heilsugæslu og koma í veg fyrir frekari skaða

 

Eflaust hafa mjög margir Grundfirðingar nú þegar tekið þátt í söfnuninni með því að hringja í símanúmer söfnunarinnar og það er mjög gott.  Þeir eru líka margir sem hafa ætlað að hringja en eru ekki búnir að koma því í verk.  Við höfum nú þegar fengið mjög góðar undirtektir frá fjölmörgum og vitum að með því að minna hvert annað á að gefa í söfnunina þá verður gjöfin stærri.

Verum þakklát fyrir það góða samfélag sem við búum í og tökum þátt í að ná settu markmiði. 

 

Gengið verður í hús í dag, fimmtudaginn 13. janúar 2005, frá kl. 19:00 og tekið á móti framlögum.

Það eru allir velkomnir í Krákuna í kvöld til að fylgjast með hvað safnast hefur. Þar verður meðal annars selt kakó og vöfflur og rennur allur ágóði af sölunni í söfnunina.  Einnig verður tónlistarflutningur og spjall milli þess sem nýjustu tölur verða birtar.