Á 624. fundi bæjarráðs Grundarfjarðarbæjar var samþykkt að skólamáltíðir í Grunnskóla Grundarfjarðar verði gjaldfrjálsar frá upphafi skólaárs 2024-2025.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru liður í aðgerðum stjórnvalda til að styðja við nýgerða langtímakjarasamninga á vinnumarkaði og leggja grunn að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks.

Í sumar samþykkti Alþingi breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem heimilar Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að greiða framlög til sveitarfélaga sem bjóða gjaldfrjálsar skólamáltíðir, en Jöfnunarsjóður greiðir þegar ýmis önnur framlög til sveitarfélaga. Árlegt framlag úr ríkissjóði bætist við tekjur Jöfnunarsjóðs vegna verkefnisins sem tekur til áranna 2024-2027. 

Áfram er boðið upp á gjaldfrjálsan hafragraut í grunnskólanum að morgni dags, eins og verið hefur.