- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Fyrir 35 árum, þann 12. júní 1986, skrifuðu krakkarnir í vinnuskóla bæjarins bréf til íbúa Grundarfjarðar.
Þá höfðu þau starfað við "þrif í þorpinu" í rúma viku og lá ýmislegt á hjarta.
Árið 1986 bjuggu 680 manns í sveitarfélaginu, bæði dreifbýli og þéttbýli. Það ár var haldið upp á að 200 ár voru frá því að Grundarfjörður fékk kaupstaðarréttindi, einn sex kaupstaða sem stofnaðir voru af Danakonungi. Allir misstu þeir þó réttindi sín síðar, nema Reykjavík. Þann 18. ágúst 1986 var haldin mikil hátíð til að minnast þessa sögulega atburðar og vísa vinnuskólakrakkarnir í það "stórafmæli" þegar þau hvetja Grundfirðinga til að taka til hendinni og snyrta hús sín og lóðir. Þau bjóða meira að segja fram aðstoð sína við að hreinsa til á lóðum, hafi íbúar ekki getu til þess - og mátti þá hafa samband gegnum "sveitarskrifstofuna" í síma 8630.
Hvatning krakkanna á alltaf vel við - einnig í dag, 35 árum síðar. Því þó vinnuskólinn í dag sé ekki mikið í því að að "sópa helstu gatnamót" þá er samt þörf á að við bæjarbúar tökum til í görðunum okkar, sinnum viðhaldi húsa og grindverka og göngum frá malarbornum bílastæðum. Góður frágangur á ruslatunnum eru líka klassísk skilaboð!
Takk fyrir ykkar framlag, vinnuskóli sumarið 1986!