- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Frétt á vef Skessuhorns:
Stærsta fiskveiðiskip Íslendinga, Vilhelm Þorsteinsson EA, kom að landi í Grundarfirði í gærkvöldi og landaði 500 tonnum af frystri síld sem fékkst í Grundarfirði síðustu fimm daga. Aflinn verður nú geymdur í nýja frystihóteli Snæfrosts sem nýverið var tekið í notkun. Síðustu vikurnar hafa veiðst um 60 þúsund tonn af síld í Grundarfirði og hingað til hefur aflanum verið siglt langar leiðir til löndunar, en með komu Vilhelms Þorsteinssonar nú hefur orðið ákveðin breyting þar á því Vilhelm er fyrsta skipið sem landar síld í Grundarfirði á þessari síldarvertíð.
Hafnastjórn Grundarfjarðar heimsótti skipsverjana um borð í gærkvöldi og færðu skipstjóranum blóm og kampavín í tilefni þess að skipið kom að höfn. Guðmundur Ingi Gunnlaugsson bæjar- og hafnarstjóri Grundarfjarðar bauð Guðmund Jónsson skipstjóra og hans áhöfn velkomna til hafnar og vonaðist hann til að fá skipið sem fyrst aftur og sem oftast. Guðmundur skipstjóri sagði að það myndi ekki líða á löngu áður en þeir kæmu aftur og sagði að það væri ánægjuleg að hafa svona gott frystihótel rétt hjá veiðislóðinni og var ánægður með höfðinglegar móttökur. Þá sagði hann að þessi afli verði geymdur í frystihóteli Snæfrosts og þangað yrði síldin sótt af flutningaskipi sem flytur hana til Austur Evrópu.
Á myndinni eru Þórður Magnússon framkvæmdastjóri Djúpakletts, Guðmundur Jónsson skipstjóri, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson bæjar- og hafnarstjóri og Runólfur Guðmundsson formaður hafnarnefndar.