- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í dag kl. 11.30 var tekin fyrsta skóflustungan að 7 íbúðum fyrir eldri borgara, fyrir ofan Dvalarheimilið Fellaskjól efst við Hrannarstíg.
Forsaga málsins er sú að haustið 2001 lét sveitarstjórn fara fram húsnæðiskönnun meðal íbúa 60 ára og eldri. Góð svörun varð í könnuninni og kom m.a. fram að margir vildu minnka við sig húsnæði á næstu árum, flestir höfðu áhuga á að flytjast í raðhús m/litlum bílskúr – nálægt þeim kjarna sem nú er fyrir á svæðinu efst við Hrannarstíg (dvalarheimili og 8 íbúðir eldri borgara að Hrannarstíg 18).
Í framhaldi af því var ákveðið að kanna möguleika á byggingu íbúða fyrir eldri borgara og var ákveðið að ráðast í hönnun og byggingu íbúða.
Nokkur undirbúningur fór af stað vorið 2002 og fyrsti fundur bygginganefndar íbúða fyrir eldri borgara var haldinn í september 2002
Í bygginganefndinni sitja Guðni E. Hallgrímsson form., Dóra Haraldsdóttir, Emil Sigurðsson og Garðar Svansson (öll bæjarfulltrúar). Ennfremur störfuðu fulltrúar frá Félagi eldri borgara í Eyrarsveit, þeir Ívar Árnason og Tryggvi Gunnarsson með nefndinni, sem og Jökull Helgason byggingafulltrúi.
Þremur aðilum var boðið að gera tillögur að útlitsteikningum raðhúsanna. Á grundvelli þeirra tillagna og kostnaðaráætlana um hönnun var ákveðið að ganga til samninga við Almennu verkfræðistofuna á Akranesi, sem hefur hannað húsið og veitt ráðgjöf.
Skipulagsvinna, nýtt deiliskipulag, hafði verið unnið fyrir svæðið þar sem gert var ráð fyrir lóðum undir þessar byggingar.
Útboð fór fram og bárust 5 tilboð. Samið var við lægstbjóðanda, Trésmiðju Guðmundar Friðrikssonar í Grundarfirði, um byggingu íbúðanna sjö, en tilboðið hljóðaði upp á 85 millj. kr.
Áætlaður verktími er frá júní 2003 til júní 2004. Íbúðirnar afhendast í áföngum, síðasta íbúðin skilast í júní 2004 ásamt lóðafrágangi.
Um er að ræða 7 fullbúin raðhús, alls 676 m2 að stærð. Þrjár íbúðanna eru 81,5 m2 og 4 íbúðir eru 65 m2 að stærð, bílskúr fylgir öllum íbúðum og er hann um 24,5 m2 að stærð.
Fyrstu skóflustunguna að íbúðunum tók Guðni E. Hallgrímsson formaður bygginganefndarinnar og gerði það með stórvirkri vinnuvél – gröfunni hans Didda Odds!
Leikskólabörn mættu á svæðið og sungu fyrir viðstadda.