- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Miðvikudagskvöldið 30. nóvember sl. var haldinn í samkomuhúsinu opinn fundur um mótun fjölskyldustefnu. Fundurinn var liður í vinnu sem fram fer á vegum Grundarfjarðarbæjar og stefnt er að því að ljúki um miðjan mars n.k. með samþykkt fjölskyldustefnu Grundfirðinga.
Leitað var eftir því sem helst brennur á íbúum varðandi málefni fjölskyldunnar, dregnar voru fram áherslur um hvað má betur gera og hvað er í góðu lagi í samfélaginu, og fundarmenn beðnir um að forgangsraða verkefnum.
Í framhaldinu verða niðurstöður fundarins notaðar í vinnu stýrihópsins. Skipaðir verða starfshópar, sem ætlað er að fjalla um afmörkuð málefni.
Í inngangsorðum bæjarstjóra kom fram að ástæður fyrir þessari vinnu væru einkum þrjár:
Í fyrsta lagi óskin um að gera enn betur, ná betri árangri, ná ,,meiru" út úr því sem við höfum í dag.
Í öðru lagi væri hér leitað eftir víðtækri forgangsröðun, hvað það er sem brennur helst á íbúum, hver eiga að ver a stefnumiðin til framtíðar?
Í þriðja lagi væri hér um að ræða tækifæri fyrir samfélagið til að sækja fram, skerpa og treysta ímynd sína og skapa sér forskot í samkeppni um fólk og tækifæri.
Bestur árangur næðist ef sem flestir kæmu að vinnunni: bærinn; stofnanir, starfsmenn og nefndir/stjórn hans, aðrar stofnanir, fyrirtæki og stjórnendur þeirra, félagasamtök og að sjálfsögðu íbúarnir og sjónarmið einstaklinganna.
Það var starfsmaður stýrihópsins, Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ALTA, sem stýrði fundinum. Um 50 manns sóttu fundinn.
Fundarmenn skiptu sér niður á borð, skrifuðu skoðanir sínar ýmist á gula miða eða ræddu og settu fram í hópum.
Létt var yfir fundarmönnum og m.a. kom fram að ástæða væri til að hvetja til frekari barneigna og ,,innri fjölgunar" á staðnum!