- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Þriðjudaginn 4. mars, síðastliðinn var haldinn fundur í forvarnarhóp bæjarfélagsins. Á fundinn, sem haldinn var í Grunnskóla Grundarfjarðar, höfðu verið boðaðir; fulltrúi frá lögreglu, Tilveru, UMFG, ásamt skólastjóra grunnskólans og starfsmönnum frá félagsmiðstöðinni Eden. Einnig sátu fundinn fulltrúar í íþrótta- og tómstundanefnd ásamt skrifstofustjóra bæjarins.
Á fundinum voru rædd forvarnarmál almennt og ástandið í málefnum barna og unglinga í bæjarfélaginu. Flestir vildu meina að staðan væri svipuð og verið hefði, en alltaf væri þörf á að sinna forvarnarþættinum af krafti. Fulltrúi lögreglu kynnti nýtt kennsluefni fyrir lögreglumenn í forvarnarmálum, sem ætlunin er að verði kennt í grunnskólum landsins, en hann hafði nýlega lokið vikulöngu námskeiði í Lögregluskólanum, þar sem kennsluefni þetta var kynnt. Umgengnismál voru ennfremur nokkuð rædd, í ljósi þess að nokkuð mikið hefur verið um skemmdarverk að undanförnu.
Meðal annars var rætt var um þörfina á því að fara neðar í aldri með forvarnarstarf og nauðsyn þess að fá foreldra til að verða virkari þáttakendur.
Ýmsar hugmyndir komu fram sem unnið verður úr á næstu vikum, en ákveðið var að forvarnarhópurinn myndi hittast aftur þann 18. mars, næstkomandi til frekara skrafs og ráðagerða.