- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Frétt af vef skessuhorns:
"Á sunnudag kom flutningaskip á vegum Nesskipa, Green Karmoy, til Grundafjarðar. Í það voru lestuð 1750 bretti af frosinni síld úr frystihótelinu Snæfrosti sem fara til Póllands og Litháen. Þetta var síðasti farmurinn af 6000 tonnum sem landað var á Grundarfirði í haust og geymd í Sæfrosti.
Að sögn Þórðar Magnússonar framkvæmdastjóra Snæfrosts hefur verið full nýting á hótelinu frá því það var tekið í notkun í nóvembermánuði, en það tekur um 2400 tonn í geymslur.
Þórður segir að hótelið hafi farið fullseint í gang miðað við að ná allri síldarvertíðinni. Alls er búið að frysta um 7000 tonn í hótelinu, en auk síldarinnar hefur rækja verið fryst hjá Snæfrosti. „Nú bíðum við bara eftir loðnunni, en áætlanir okkar byggjast á frystingu á loðnu í febrúar og mars og síðan á loðnuhrognum í mars og apríl. Þetta er búið að vera ágætis byrjun og við erum bara þokkalega bjartsýnir með framhaldið.” Þórður segir ljóst að bolfiskur verði ekki frystur í hótelinu, nema þá hugsanlega ef birgðir hlaðist upp í einstaka tegundum, eins og t.d. karfa. „Það gæti komið dauður tími með vorinu, en þá erum við búnir að tryggja okkur að hluta, en annars er ekkert hægt að segja um morgundaginn í sjávarútveginum hjá okkur,“ segir Þórður.
Þórður er einn af mörgum eigendum í Snæfrosti, í gegnum fyrirtæki sitt Djúpaklett. Stærsti eigandinn er hlutafélag sem heitir Vesturland og er Sparisjóður Mýrasýslu eigandi þess félags. Hlutafé í Snæfrosti er 56 milljónir."