- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Fjölbrautaskóli Snæfellinga hefur verið valinn til þátttöku í APPOLLO 11 afmælishátíð NASA í Bandaríkjunum, sem um þessar mundir heldur upp á að 40 ár eru liðin síðan maður setti fyrst fót á tunglið.
FSN er einn af fimm alþjóðlegum framhaldsskólum sem taka þátt í undirbúningi hátíðarinnar, með fræðslu um geimvísindi, samkeppni um myndverk og göngukeppni. Fróðleikur um geimferðir og stjarnvísindi eru ofarlega á dagskrá í aðdraganda afmælisins og kynningarefni verður til reiðu í náms- og kennslukerfi skólans.
Haldið verður upp á afmælið með þekkingarmaraþoni / þemadegi - fimmtudaginn 19. nóvember. Þá munu nemendur í FSN leggja vanabundið nám til hliðar en starfa saman í áhugahópum um einstök málefni sem tengjast geimþemanu. Um miðbik dagsins verður farið í táknræna tunglgöngu, þar sem gengin verður vegalengdin til tunglsins, þar sem 1 skref er tekið fyrir hverja mílu. Eftir hádegi opnar skólinn dyr sínar fyrir gestum og gangandi sem vilja fræðast um geiminn og geimferðir. Síðdegis fær skólinn gesti í heimsókn sem kynna stjörnufræði og stjörnuskoðun – og vísindarannsóknir sem tengjast geimferðum og geimvísindum. Dagskrá dagsins má kynna sér nánar hér.
FSN mun taka þátt í gagnvirkri útsendingu með vísindamönnum NASA fimmtudaginn 19.nóvember – kl. 18.00. Þá mun skólinn tengjast Johnson Space Center í Houston, Texas – til að fræðast um tunglferðir, þjálfun geimfara og geimskot. Nemendur munu jafnframt fá tækifæri til að leggja spurningar fyrir vísindamenn stöðvarinnar og kynnast aðstæðum þar.
Deginum lýkur með MORFÍS mælsku- og rökræðukeppni, það eru MH-ingar sem sækja FSN heim.