Friðrik Vignir Stefánsson organisti Grundarfjarðarkirkju mun halda einleikstónleika í Stokkhólmi í boði organista Katarina safnaðar. Tónleikarnir verða haldnir í Katarina-kirkju fimmtudaginn 15. júlí nk. kl. 12.00. 

 

Af því tilefni mun Friðrik Vignir bjóða Grundfirðingum á opna æfingu fimmtudagskvöldið 8. júlí nk. kl. 20.30 þar sem þeim gefst kostur á að hlusta á efnisskrá hans. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

 

 

Katarina er ein elsta kirkja Stokkhólms en hún var fyrst vígð árið 1695. Í kirkjunni var orgel frá 1783 en árið 1990 brann kirkjan og gamla orgelið þar með ónýtt. Árið 2000 var vígt nýtt orgel í kirkjunni sem var byggt af J.L. van den Heuel orgelsmiðunum í Hollandi eftir teikningu af gamla orgelinu. Orgelið er sérstakt fyrir það að spilaborðið á orgelloftinu snýr fram í kirkjuna og orgelbekkurinn er með baki.

Til gamans má frá því segja að stærsta pípan í orgelinu vegur 500 kg. Orgelið sjálft er hið glæsilegasta og þykir í dag eitt besta orgel Svíþjóðar, það er mjög vinsælt hjá organistum til upptöku á geisladiskum. Friðrik Vignir hefur æft stíft síðustu vikur fyrir tónleikana. Á tónleikunum mun hann flytja 2 tónverk í fyrsta sinn eftir J.S.Bach. Á efnisskránni eru eftirtalin verk:

J.S.Bach:  “Prelúdía og fúga BWV. 547” og  sálmforleikurinn “ Nun komm der Heiden Heiland BWV. 659”,  3 kóralforspil eftir Jón Nordal, Ragnar Björnsson og Þorkel Sigurbjörnsson,  og Toccata úr “Gotnesku svítunni” eftir Leon Boëllmann.

 

Sem fyrr segir eru tónleikarnir í Katarina-kirkju í Stokkhólmi 15.júlí kl. 12.00.  Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.