- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Fréttir frá Tónlistarskóla Grundarfjarðar
Það hefur verið mikið um að vera í Tónlistarskóla Grundarfjarðar síðustu vikur. Nemendur æfðu af kappi fyrir hina árlegu jólatónleika sem haldnir voru fimmtudaginn 7. desember sl. fyrir fullu húsi í Grundarfjarðarkirkju. Tókust tónleikarnir glimrandi vel, nemendur vel undirbúnir og stóðu allir sig frábærlega.
Dagana 11. - 15. desember var uppbrot í kennslunni og fóru nemendur og spiluðu fyrir fólk á öllum aldri. Krökkunum var skipt niður í nokkra litla hópa og fóru þeir á dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól, leikskólann og í "Molakaffi" í Sögumiðstöðinni. Á þessum litlu tónleikum var spilað á hin ýmsu hljóðfæri og sungið.
Nemendur Eldhamra kíktu í heimsókn í tónlistarskólann og hlustuðu á æfingu hjá skólahljómsveitinni og sungu með þeim nokkur vel valin jólalög. Skemmtileg uppbrotsvika sem við hlökkum til að endurtaka.