- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Fyrir stuttu kom til starfa á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar ungur byggingafræðingur, Jón Pétur Pétursson. Jón Pétur er Grundfirðingur, sonur P. Guðráðs Péturssonar, sérkennara og ökukennara og Hjördísar Vilhjálmsdóttur, sérkennara. Jón Pétur er verkefnaráðinn til þess að vinna að undirbúningi framkvæmda sem framundan eru vegna unglingalandsmótsins árið 2009. Í æði mörg horn er að líta við þennan undirbúning. Sem dæmi má nefna að móta þarf svæði fyrir boltaleiki og leggja þarf gerviefni á brautir og stökksvæði íþróttavallarins.....
Taka þarf tillit til alls konar atriða við undirbúninginn og mótun svæðanna. Framkvæmdanefnd hefur tekið til starfa vegna undirbúningsins. Í dag komu fulltrúar UMFÍ í Grundarfjörð til samráðs við framkvæmdanefndina og unglingalandsmótsnefndina. Farið var yfir stöðuna í undirbúningnum og þótti fulltrúum UMFÍ allur undirbúningur vera í eðilegum farvegi miðað við að 16 mánuðir eru til mótsins. Til skýringar má geta þess að "framkvæmdanefndin" hefur það hlutverk að undirbúa aðstöðuna fyrir mótið en "unglingalandsmótsnefndin" undirbýr mótið sjálft, ákveður í samráði við aðra aðila að mótinu hvaða keppnisgreinar verða í boði og sér um að undirbúa keppni í þeim.