Laugardaginn 5. mars var haldið íbúaþing Grundfirðinga, undir yfirskriftinni „Bjóðum tækifærunum heim!“  Ríflega 130 íbúar sóttu þingið og tóku virkan þátt í umræðum um framtíðarsýn bæjarins í skipulagsmálum og málefnum fjölskyldunnar.

 

Grundfirðingar standa um margt á tímamótum. Íbúum og bæjaryfirvöldum er í mun að nýta sem allra best þau tækifæri sem nú blasa við.  Grundarfjarðarhöfn hefur á síðustu árum verið í mikilli sókn og töldu þátttakendur áframhaldandi þróun hafnarstarfsemi bæði á sviði sjávarútvegs og ferðaþjónustu vera eitt af stærstu tækifærum Grundfirðinga um þessar mundir.  Íbúar sjá annað stórt tækifæri í áformum um að nýta heitt vatn í nágrenni þéttbýlisins og eru vonir bundnar við lagningu hitaveitu í sveitarfélaginu.  Þá var Fjölbrautaskóli Snæfellinga nefndur sem mikilvægt tækifæri og gjörbreyting á aðstöðu fólks og atvinnutækifærum. Loks nefndu þátttakendur þau tækifæri sem staðsetning Grundarfjarðar skapar, þ.e. nálægð við höfuðborgarsvæðið, fiskimið og staðsetning miðsvæðis á Snæfellsnesi. 

 

Lykilatriði er að nýta til hlítar þau tækifæri sem víst er að munu skapast, með því að nálgast þau á opinn og skapandi hátt.  Sem dæmi má nefna að með lagningu hitaveitu verður þörf fyrir endurbætur og endurhönnun gatna sem skapar möguleika á að gjörbreyta ásýnd bæjarins og styðja enn frekar við framtíðarsýn íbúa um bætta ásýnd bæjarins.

 

Málefni leikskólans voru mikið til umræðu, en núverandi húsnæði er orðið of lítið og þarfnast endurbóta og staðsetning leikskólans í miðbæ hefur ýmsa galla.  Sterkar raddir voru um að til lengri tíma litið væri skynsamlegra að byggja nýjan leikskóla á nýjum stað og voru nokkrar staðsetningar nefndar.  Á hinn bóginn er ljóst að leikskólinn skapar mannlíf í miðbænum og við ákvörðun þarf að taka tillit til þess hvernig núverandi húsnæði eða landrými yrði nýtt ef leikskólinn yrði fluttur.  Varðandi skipulagsmál var helst bent á að byggðina þarf að þétta og skilgreina betur og miðbærinn ætti að vaxa inn á við.  Meðal ábendinga varðandi skipulag dreifbýlisins var að lagður verði vegur í kringum Eyrarfjall og að gönguleiðir verði merktar. 

 

Á þinginu var meðal annars kallað eftir því hvað íbúarnir telja að séu helstu verðmæti samfélagsins. Afgerandi skilaboð komu um að mestu verðmætin liggja í börnunum og unga fólkinu og öðrum mannauði. Lögðu þátttakendur sérstaka áherslu á að haldið verði áfram að hlúa vel að yngri kynslóðinni. Íbúarnir telja að verðmæti Grundarfjarðar felist einnig í náttúrunni og umhverfinu, öflugu atvinnulífi, bjartsýni, samkennd og frumkvæði einstaklinga. Niðurstöður þingsins endurspeglast vel í því sem nemendur Grunnskólans töldu vera einn af kostunum við að búa í Grundarfirði. Að Grundarfjörður er lítill bær og að þar býr bjartsýnt fólk!